149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[11:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Að beiðni hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson og fleiri alþingismanna lagði ég sl. vor fram skýrslu til Alþingis um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík. Í skýrslunni er aðdragandinn að útgáfu starfsleyfisins rakinn, auk þess sem þeim spurningum sem fram koma í skýrslubeiðninni er svarað. Skýrsla þessi er nú hér til umfjöllunar ásamt skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í vor og fjallar um aðkomu og eftirlit stjórnvalda vegna umræddrar verksmiðju.

Í skýrslu minni til Alþingis er greint frá því að málefni Sameinaðs sílikons hf. eiga sér engin fordæmi hér á landi. Afar mikilvægt er að við lærum af þessu máli.

Í skýrslunni er rakið ferlið vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og umsóknar um starfsleyfi fyrir starfsemina hjá Umhverfisstofnun. Í mati á umhverfisáhrifum fyrir starfsemi Sameinaðs sílikons hf. var gert ráð fyrir neikvæðum áhrifum á loftgæði og kom fram í áliti Skipulagsstofnunar að losun mengunarefna í loft frá verksmiðjunni myndi bætast við þá mengun sem nú þegar væri í Helguvík. Var niðurstaðan sú að við samlegðina myndi styrkur mengunarefna aukast en loftgæði á svæðinu myndu þó ávallt vera undir viðmiðunarmörkum íslenskra reglugerða.

Eins og greint er frá í skýrslu minni voru útgefnu starfsleyfi Umhverfisstofnunar vegna Sameinaðs sílikons sett mörk á losun mengandi efna í loft, eins og venja er, og fylgst með losun á þeim í samræmi við vöktunaráætlun. Á þeim tíma sem verksmiðjan starfaði fór losun aldrei yfir heimiluð mörk á þeim mengunarefnum sem tekið var á í starfsleyfi, sem eru ryk, brennisteinsdíoxíð, ýmsir þungmálmar, olía og fita og svifagnir. Við útgáfu starfsleyfisins var hins vegar ekki gert ráð fyrir þeim umfangsmiklu lyktaráhrifum sem raun varð á, enda slík áhrif hvorki þekkt af sambærilegri starfsemi hér á landi né aðgengilegar upplýsingar um slík áhrif erlendis. Er það mjög miður.

Eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar lá fyrir í málinu af hálfu þáverandi eigenda Sameinaðs sílikons að þegar verksmiðjan hóf rekstur hafi búnaðurinn ekki verið fullnægjandi og verksmiðjan ekki fullbúin. Það er alvarlegt mál.

Ljóst er að Umhverfisstofnun hefur aldrei áður haft jafn umfangsmikið eftirlit með atvinnurekstri og raunin var í tilviki Sameinaðs sílikons hf. Umfangið endurspeglaðist m.a. í fjölda eftirlitsferða Umhverfisstofnunar í verksmiðjuna, kröfum um úrbætur, áherslu á upplýsingar til almennings og stjórnvalda, mati sóttvarnalæknis á heilsufarsáhrifum og viðamiklum mælingum í grennd við verksmiðjuna. Reynslan af eftirlitinu hefur þegar verið nýtt við undirbúning starfsleyfa fyrir sambærilega starfsemi annars staðar, svo sem með ítarlegri ákvæðum um varnir gegn lyktarmengun við útgáfu starfsleyfis kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík.

Í skýrslu ráðherra til þingsins er greint frá því að ljóst hafi verið að rekstraraðili Sameinaðs sílikons hf. uppfyllti ekki tilteknar kröfur í lögum og reglugerðum auk annarra krafna sem settar voru fram af stjórnvöldum. Útgefið byggingarleyfi og mannvirkjagerð hafi hvorki verið í samræmi við mat á umhverfisáhrifum né gildandi skipulag. Segir í skýrslunni að verði af áframhaldandi starfsemi verksmiðjunnar í Helguvík þurfi rekstraraðilar augljóslega að uppfylla kröfur laga og reglugerða um starfsemina og í því sambandi þurfi að ljúka endanlegum úrbótum í tengslum við mannvirkjagerðina og skipulag. Þá hafi Umhverfisstofnun tilkynnt rekstraraðila um endurskoðun á starfsleyfi verksmiðjunnar, m.a. vegna nauðsynlegrar uppfærslu í ljósi breytinga á lögum. Stofnunin hafi samþykkt úrbótaáætlun rekstraraðila með skilyrðum og hefur verksmiðjan ekki heimild til endurræsingar fyrr en að loknu mati á endurbótum og ákvörðun Umhverfisstofnunar þar um. Loks beri rekstraraðila að tilkynna Skipulagsstofnun um allar breytingar á mannvirkjum, starfsemi og umhverfisáhrifum sem orðið hafa frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram.

Eins og áður greinir vann Ríkisendurskoðun að úttekt á aðkomu og eftirliti stjórnvalda vegna kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons á sama tíma og skýrsla ráðherra til þingsins var unnin. Ráðuneytið hefur þegar tekið til skoðunar ábendingar Ríkisendurskoðunar sem þar koma fram og átt fundi með Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti vegna þeirra.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er eftirfarandi tilmælum beint til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins: Í fyrsta lagi að kanna í samstarfi við Umhverfisstofnun og önnur stjórnvöld hvort herða þurfi þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem sækja um starfsleyfi vegna mengandi atvinnustarfsemi. Þá þurfi að gera skýrar og raunhæfar kröfur um áreiðanleika og gæði þeirra gagna sem fylgja starfsleyfisumsóknum. Og í öðru lagi að tryggja eins og frekast er unnt að fyrirtæki sem óska eftir leyfi til mengandi starfsemi hafi tæknilega, faglega og fjárhagslega burði til að uppfylla skilyrði starfsleyfis.

Í svörum ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar er tekið undir með Ríkisendurskoðun að kanna hvort gera ætti auknar kröfur til þeirra sem sækja um starfsleyfi og hefur ráðuneytið það nú þegar til skoðunar í samráði við viðeigandi stjórnvöld. Ríkisendurskoðun var jafnframt bent á að ráðuneytið hefði að undanförnu unnið að því að styrkja umhverfislöggjöfina á þessu sviði. Með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir á árinu 2017 voru til að mynda gerðar auknar kröfur til mengandi starfsemi. Breytingar á lögum nr. 66/2017 tóku að mestu leyti gildi 1. júlí 2017, þ.e. eftir að starfsleyfi Sameinaðs sílikons hf. var gefið út. Með þessari lagabreytingu var tilskipun um losun í iðnaði innleidd í íslenskan rétt. Með breytingunum er gerð sú krafa að útgefandi starfsleyfis vísi í starfsleyfi beint til viðeigandi niðurstaðna um bestu aðgengilegu tækni, m.a. setji þar fram ákvæði um losunarmörk vegna starfseminnar. Rekstraraðila ber samkvæmt breytingunum að taka tillit til viðeigandi niðurstaðna varðandi bestu aðgengilegu tækni, skila grunnskýrslu um ástand umhverfisins áður en ný starfsemi hefst og tryggja að við lok rekstrar séu gæði endurheimt, t.d. skal iðnaðarlóð skilað í sama ástandi og grunnskýrsla segir til um. Þá var bætt við ákvæðum um skyldur og ábyrgð rekstraraðila til að undirstrika ábyrgð þeirra á því að starfsemin sé ávallt í samræmi við gildandi löggjöf og starfsleyfi.

Í vor tók einnig gildi ný reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit þar sem m.a. er kveðið á um heimild Umhverfisstofnunar til að gera í sérstökum tilvikum strangari kröfur í starfsleyfum en koma fram í niðurstöðum varðandi bestu aðgengilegu tækni.

Auk þessa er fyrirhugað að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi frumvarp um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem kveðið verði á um heimildir Umhverfisstofnunar til að leggja stjórnvaldssektir á rekstraraðila vegna brota hans í tengslum við starfsleyfisskylda starfsemi. Verði fyrirhugað frumvarp um stjórnvaldssektir að lögum verður einnig unnt að bregðast við hugsanlegum brotum rekstraraðila með álagningu stjórnvaldssekta.

Í svörum ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar er tekið undir með henni að gera þurfi skýrar og raunhæfar kröfur um áreiðanleika og gæði gagna sem fylgja umsóknum um starfsleyfi en jafnframt bent á mikilvægi þess að rekstraraðili beri ábyrgð á að öll gögn séu rétt og faglega unnin. Þar að auki er almennt bent á að rekstraraðili beri ábyrgð á að öll skilyrði fyrir starfsemi hans séu uppfyllt, þar á meðal að viðeigandi fagleg þekking sé til staðar.

Ráðuneytið telur að skoða þurfi hvort gera eigi sams konar kröfur um sérfræðiþekkingu varðandi útgáfu starfsleyfis og lagðar eru til varðandi mat á umhverfisáhrifum í frumvarpi til breytinga á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi, annars vegar hvort rétt sé að gera kröfu um sérfræðiþekkingu rekstraraðila til að hann geti uppfyllt kröfur starfsleyfis um starfsemina og hins vegar hvort rétt sé að gera þá kröfu á útgefanda starfsleyfis að hann hafi yfir að ráða nægjanlegri sérfræðiþekkingu eða geti aflað hennar. Er þetta til skoðunar í ráðuneytinu.

Ráðuneytið tekur einnig undir það með Ríkisendurskoðun að mikilvægt sé að hlutaðeigandi stjórnvöld kanni fjárhagslega getu rekstraraðila í tengslum við gerð ívilnunarsamninga, en nauðsynlegt er að endurskoða hvernig staðið er að þeim líkt og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Vinna við það er hafin í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið bendir jafnframt á að Umhverfisstofnun hefur ekki það hlutverk lögum samkvæmt að kanna fjárhagslegan grundvöll fyrirtækja áður en starfsleyfi eru gefin út, heldur er það hlutverk stofnunarinnar að hafa eftirlit með þáttum er snúa að umhverfiseftirliti, þar með talið mengunarvörnum og að kröfur þeim tengdar séu uppfylltar.

Í skýrslu sinni bendir Ríkisendurskoðun á að brýnt sé við endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda að ferlið verði styrkt og telur að kanna þurfi hvort gera eigi strangari kröfur um þekkingu þeirra aðila sem koma að matinu, hvort styrkja eigi rýniferli frummatsskýrslu framkvæmdaraðila og hvort tryggja eigi Skipulagsstofnun haldbetri úrræði þegar framkvæmdir reynast ekki vera í samræmi við umhverfismat.

Eins og áður er frá greint er fyrirhugað að leggja frumvarp fram að nýju á yfirstandandi þingi um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Verði frumvarpið að lögum mun það auka gæði málsmeðferðar við mat á umhverfisáhrifum vegna kröfu tilskipunarinnar um sérfræðiþekkingu við gerð frummatsskýrslu og yfirferð á gögnum um mat á umhverfisáhrifum, auk heimildar til að beita stjórnvaldssektum. Það mun auk þess stuðla enn frekar að því að framkvæmdir séu í samræmi við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Ábendingar Ríkisendurskoðunar munu enn fremur koma til skoðunar við fyrirhugaða heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum sem segja má að hafi hafist í ágúst sl. með upphafsfundi umhverfis- og auðlindaráðherra með hagsmunaaðilum.

— Ég stóð í þeirri meiningu, herra forseti, að ég hefði tíu mínútur. Var það misskilningur?

(Forseti (JÞÓ): Það er rétt.)

Þá hætti ég núna í bili. Ég sé að það eru enn þá níu mínútur eftir.

(Forseti (JÞÓ): Forseti var að reyna að vera gjafmildur og lauma þessu að ráðherranum.)