149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[12:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Fyrir rúmu ári síðan hafði ég frumkvæði að því að Alþingi lagði fram tvær skýrslubeiðnir varðandi aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons í Helguvík. Annarri beiðninni var beint til umhverfis- og auðlindaráðherra og hinni, sem var mun umfangsmeiri, til Ríkisendurskoðunar.

Aðdragandi skýrslubeiðninnar var það öngstræti sem verkefnið allt var komið í á vordögum 2017. Þá hafði verksmiðjan aðeins verið rekin í nokkra mánuði en frá upphafi var vegurinn þyrnum stráður og íbúar í nágrenni verksmiðjunnar kvörtuðu ítrekað undan ólykt og líkamlegum óþægindum. Eftir margendurteknar tilraunir til úrbóta stöðvaði Umhverfisstofnun síðan reksturinn endanlega 1. september í fyrra.

Tímans vegna ræði ég hér fyrst og fremst skýrslu Ríkisendurskoðunar en um skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra langar mig þó að segja þetta: Í henni segir að málefni Sameinaðs sílikons eigi sér engin fordæmi hérlendis og að mikilvægt sé að læra af þeirri reynslu. Ég tek heils hugar undir þau orð, herra forseti, en vil jafnframt benda á að það er engan veginn sjálfgefið að réttur lærdómur sé dreginn af þeirri sorgarsögu.

Skýrslubeiðnin til ríkisendurskoðanda fól í sér að embættið skoðaði aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til verksmiðjunnar í Helguvík og aðkomu stjórnvalda að málinu, eftirfylgni og úrræði. Í skýrslunni er alls sjö ábendingum beint til tveggja ráðuneyta og þriggja undirstofnana. Hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fengu menn falleinkunn fyrir gerð ívilnunarsamnings við Sameinað sílikon þar sem alfarið var byggt á framlögðum gögnum og upplýsingum frá fyrirtækinu sjálfu.

Við afgreiðslu samningsins lágu ekki einu sinni fyrir skýrar upplýsingar um eignarhald og stjórnendur en gert var ráð fyrir að hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar næmi allt að hálfum milljarði króna. Til umhverfis- og auðlindaráðuneytis beindi Ríkisendurskoðun tveimur ábendingum, um að herða þyrfti kröfur vegna mats á umhverfisáhrifum og að kanna þyrfti hvort herða ætti kröfur vegna útgáfu starfsleyfis. Var farið nánar í það í ábendingum til Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Vinnueftirlits ríkisins.

Í stuttu máli þarf að gera auknar kröfur til mats á umhverfisáhrifum, tryggja að umsóknir um starfsleyfi fái ítarlega og gagnrýna umfjöllun, bæta verklag við útgáfu starfsleyfa og bæta skráningu samskipta og halda verkbókhald vegna eftirlits, sem sagt laga undirbúning, laga gerðina og laga eftirlitið. Í skýrslunni er fjallað um hversu mikilvægt það er að stofnanir ríkisins, sem koma að útgáfu starfsleyfa og gerð ívilnunarsamninga, geti sannreynt getu þeirra sem sækjast eftir því að starfrækja mengandi iðnað til að uppfylla skilyrði slíks rekstrar og sanngildi þeirra upplýsinga sem þeir leggja fram.

Staðreyndin er sú að kísilverksmiðja Sameinaðs sílikons var ekki fullbúin þegar framleiðsla hófst og starfaði aldrei í samræmi við mat á umhverfisáhrifum, starfsleyfi og markmið samnings um ívilnanir. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er samfelldur áfellisdómur yfir aðdraganda, framkvæmd og eftirfylgni með þessu verkefni sem svo miklar væntingar voru bundnar við í upphafi. Tap samfélagsins af þessu ævintýri er gríðarlegt, bæði margra milljarða tap banka og lífeyrissjóða og tap Reykjanesbæjar, sem þarf að kljást við ýmsar neikvæðar afleiðingar þessa máls.

Svokölluð staðfestingarskekkja, eða upp á ensku, með leyfi forseta, „confirmation bias“, er hugtak sem lýsir þeirri tilhneigingu fólks að leita einungis skýringa eða upplýsinga sem styðja fyrirframgefnar skoðanir þess, eða leitast við að túlka upplýsingar einungis á þann hátt að það staðfesti fyrirframgefnar eða -mótaðar hugmyndir og að sama skapi að hunsa upplýsingar sem ganga gegn þessum fyrirframgefnu hugmyndum.

Ég neita því ekki að þetta hugtak kom upp í hugann við lestur á samantekt Ríkisendurskoðunar á þessari atburðarás allri í kringum kísilverksmiðjuna í Helguvík. Sagan nær nefnilega lengra aftur en til ársins 2014 þegar þessi dæmalausi ívilnunarsamningur var undirritaður. Atburðarás áranna þar á undan er rakin ágætlega í umfangsmikilli umfjöllun Morgunblaðsins á þeim tíma. Þar er dregin upp ansi ógeðfelld mynd af afskiptum stjórnvalda af þessu máli öllu. Slík afskipti eru sannarlega líkleg til að hafa haft áhrif á þessa atburðarás sem síðan fær falleinkunn í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ég hef ekki tíma til að rifja upp það sem gekk á í tengslum við fjárfestingarsamning stjórnvalda við Norðurál, í tengslum við fyrirhugað álver í Helguvík, sem undirritaður var árið 2009. Ekki heldur hamaganginn í kringum eignarhaldið á HS Orku eða afdrif orkusölusamnings við Norðurál í Helguvík. Af atburðarás þeirri allri má ráða að tekist var harkalega á um það á vettvangi stjórnmálanna hvort væri æskilegri kostur, álver eða kísilver, og varð þar kísilverið ofan á. Skýrsla Ríkisendurskoðunar leiðir hins vegar í ljós að sú niðurstaða var byggð á sandi í besta falli.

Herra forseti. Ég er sannarlega ekki að gera lítið úr ábyrgð aðstandenda Sameinaðs sílikons í Helguvík sem virðast hafa afvegaleitt yfirvöld, eftirlitsaðila og aðra með röngum upplýsingum, mér liggur við að segja í hvert skipti sem eftir slíku var sóst. Ábyrgð þeirra er mikil og stefnir í að það verði ærið verkefni fyrir dómskerfið á næstu árum að ráða fram úr þeirri flækju allri. Stjórnvöld bera þó án nokkurs vafa mestu ábyrgðina hér. Þau eiga að tryggja hagsmuni almennings en það var ekki gert. Slíkt má ekki endurtaka sig.

Við þurfum að læra af þessari bitru reynslu en ég ítreka að það eru mikil mistök að halda að slíkur lærdómur komi af sjálfu sér eða við lestur þessarar skýrslu eingöngu. Það þarf einbeittan vilja og mikla vinnu til að læra af þessu ferli til að tryggja að allar ábendingar Ríkisendurskoðunar verði teknar til greina og þeim fylgt eftir af fullri alvöru og af fullum þunga í verkefnum framtíðarinnar.

Þar er hlutverk stjórnvalda mikið og þar er hlutverk stjórnvalda mikilvægt. Að öðru leyti eiga afskipti þeirra að vera sem minnst. Reynslan sýnir nefnilega að stjórnmálamenn, mögulega öðrum fremur, eru veikir fyrir staðfestingarskekkjunni. Það kann ekki góðri lukku að stýra að láta hana ráða för vegna þess að almenningur vænkast sjaldan á slíkri vegferð. Það getur almenningur í Reykjanesbæ væntanlega staðfest.