149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[12:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Heimili mitt er í 5 km fjarlægð frá iðnaðarsvæðinu í Helguvík þar sem tekið var til við að byggja það sem átti að vera heimsins stærsta kísilver og áform um að byggja annað kísilver rétt við hliðina, líka það stærsta í heimi. Hugmyndin var að byggja tvö heimsins stærstu kísilver aðeins um 1 km frá íbúabyggð og 1,5 km frá skóla og leikskóla.

Sem Suðurnesjamaður fylgdist ég með sögu kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. sem endaði ekki vel. Svo virðist sem pólitíkin og stjórnsýslan á sveitarstjórnarstigi, í ráðuneytum og eftirlitsstofnanir hafi brugðist íbúum Reykjanesbæjar á öllum stigum uppbyggingarferilsins. Í veikri stöðu Reykjanesbæjar voru gerðir samningar um kísilverið. Í júní 2013 var sótt um starfsleyfi fyrir verksmiðjuna sem veitt var um ári síðar. Framleiðsla hófst síðan í nóvember 2016. Ríkisendurskoðun bendir á í skýrslu sinni að verksmiðjan hafi ekki verið fullbúin þegar hún tók til starfa og reyndist ekki í stakk búin til að starfa í samræmi við undangengið mat á umhverfisáhrifum, útgefin starfsleyfi eða þau markmið sem stefnt var að samkvæmt samningi um ívilnanir.

Eftir sláandi lestur skýrslu Ríkisendurskoðunar um kísilverið í Helguvík renndi ég yfir fréttir á vefnum vf.is um verksmiðjuna. Í fyrstu og vel fram á sumarið 2015 voru fréttir og pistlar afskaplega jákvæðir þótt í einstaka aðsendum greinum kæmu fram gagnrýnisraddir. Stuttu eftir gangsetningu verksmiðjunnar haustið 2016 fjölgaði neikvæðum fréttum þó að um leið væri vitnað í fyrirtækið og eftirlitsstofnanir um að einungis væri um byrjunarerfiðleika að ræða.

Fréttum af íbúum sem kvörtuðu undan slæmri brunalykt fjölgaði þegar á leið. Einn íbúi sagði á íbúafundi að gasskynjari hefði farið í gang þegar hann hafði útidyr á heimili sínu opnar um tíma. Hann hafði áhyggjur af því að önnur efni en þau sem verið var að mæla streymdu frá verksmiðjunni. Annar íbúi sem býr í rúmlega 1.200 m fjarlægð frá verksmiðjunni kvaðst hafa keypt hús sitt á svæði sem skilgreint var sem íbúabyggð en með tilkomu verksmiðjunnar væri húsið á mengandi svæði.

Fréttir voru sagðar af fjölda kvartana sem bárust til Umhverfisstofnunar og til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Vitnað var í sóttvarnalækni sem sagði fólk ekki í bráðri hættu vegna hugsanlegrar loftmengunar en hann hvatti þó fólk til að leita sér læknisaðstoðar fyndi það fyrir einkennum. Frétt var um að sóttvarnalæknir hafi farið yfir upplýsingar frá læknum heilsugæslu Suðurnesja, fjölda ákveðinna sjúkdómsgreininga og sölu öndunarfæralyfja á Suðurnesjum. Einnig hafði hann farið yfir kvartanir frá íbúum í nágrenni verksmiðjunnar í Helguvík og niðurstöður mælinga.

Mat sóttvarnalæknis á fyrirliggjandi upplýsingum um heilsufarsáhrif mengunar frá verksmiðjunni var að hún virtist valda vægri ertingu í augum og öndunarvegi hjá heilbrigðum einstaklingum en þó mismikilli milli einstaklinga. Einstaklingar með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma fundu sumir fyrir astmaeinkennum sem í mörgum tilfellum krefðust sérstakrar lyfjagjafar. Einkennin gætu stafað af efnum sem mælst hafa og vísbendingar eru um að gætu verið í útblæstri verksmiðjunnar. Því væri nauðsynlegt að fá frekari mælingar á þessum efnum til að meta betur hugsanleg heilsufarsáhrif mengunarinnar.

Vefkönnun Víkurfrétta frá því í september í fyrra, sem nærri 1.800 manns tóku þátt í, sýndi að sjö af hverjum tíu íbúum Reykjanesbæjar hafi fundið fyrir mengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík. Íbúarnir upplifðu sig sem einhvers konar tilraunadýr, að kanna ætti hvað þeir þyldu lengi mengunina frá kísilverinu. Sumarið 2017 var nóg komið og algjörlega óásættanleg staða komin upp. Verksmiðjunni var lokað og gjaldþroti lýst í kjölfarið, en hver verður framtíð kísilverksmiðjunnar? Er núverandi eigendum alvara með því að setja verksmiðjuna aftur í gang og munu íbúar Reykjanesbæjar sætta sig við það? Hvað getur bæjarstjórnin gert í þessari stöðu?

Stakksberg ehf. er nýr eigandi kísilsversins í Helguvík. Í sumar auglýsti Stakksberg drög að tillögu að matsáætlun vegna nýs umhverfismats kísilverksmiðjunnar. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum þann 21. júní sl. og var óskað eftir athugasemdum frá almenningi. Stakksberg ehf. er félag í eigu Arion banka sem tekið hefur yfir kísilverksmiðjuna í Helguvík af þrotabúi United Silicon ehf. Í tilkynningu frá félaginu segir að markmið Stakksbergs sé að gera allar þær úrbætur sem nauðsynlegar séu til að uppfylla kröfur Umhverfisstofnunar en stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu í janúar á þessu ári að verksmiðjan uppfyllti ekki skilyrði fyrir starfsleyfi.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hafnaði þann 12. október sl. beiðni um heimild til að vinna deiliskipulagsbreytingu í Helguvík, í samræmi við skipulags- og matslýsingu. Skipulags- og matsskýrslunni var einnig hafnað. Á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar þann 16. október mælti formaður bæjarráðs fyrir tillögum meiri hlutans sem samþykkt var samhljóða. Í tillögunni segir að óvissa sé um stöðu skipulagsmála í Helguvík og óljóst hvort verksmiðjan geti tekið til starfa á ný á grundvelli gildandi skipulags. Þá ríki óvissa um skyldu Reykjanesbæjar til að samþykkja beiðni af þessu tagi á þeim grundvelli sem hún er lögð fram. Kanna þurfi betur gildandi deiliskipulag og framkvæmdaleyfi og eðlilegt sé að framkvæmdaraðili klári að vinna umhverfismat áður en hafist er handa við endurskoðun deiliskipulagsins.

Af tillögunni má ráða að bæjarstjórn Reykjanesbæjar vilji að íbúar segi til um hvort þessi verksmiðja eigi að halda áfram að starfa. Það er alveg ljóst, herra forseti, að það verður að draga lærdóm af því fúski sem átti sér stað í uppbyggingu starfsemi kísilversins í Helguvík. Svona lagað má aldrei gerast aftur. Saga kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík á að vera víti til varnaðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)