149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[12:54]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er búið að rekja þetta mál nokkuð vel af mörgum hv. þingmönnum. Ég tek sérstaklega undir það sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson, hafði að segja og er ekki ástæða til að orðlengja það neitt frekar þó svo að auðvitað megi ræða málið mjög lengi.

Mig langar frekar að fara aðeins í annan gír sem er að skoða í samhengi annars vegar þörfina á þeirri uppbyggingu sem hefur verið í Helguvík og hins vegar hvernig það rímar við umhverfisverndarmál, loftslagsmál, spurningar um mengun og samfélagsleg áhrif. Það hefur lengi verið mikil þörf á einhvers konar uppbyggingu í Reykjanesbæ, eins og hefur verið rakið, og markmiðið um iðnaðarkjarna í Helguvík er í grundvallaratriðum gott.

Þegar ákvörðun er tekin um að fara í kísilver af þessu tagi hljóðar það upp á mörg þúsund tonna koltvísýringslosun sem er, eins og var nefnt, innan þeirra marka sem var gert ráð fyrir í starfsleyfi, bæði varðandi koltvísýring, brennisteinsdíoxíð og önnur efni. Það er hins vegar mjög áhugavert að ekki voru sett nein mörk á svifryk og ýmis önnur efni sem hafa mjög skaðleg áhrif. Öllum sem studdu uppbygginguna í upphafi og snerist svo hugur þegar kom í ljós hve mikil mengun fylgdi mátti þó vera ljóst frá byrjun í hvað stefndi. Hreinsun kísils er mjög vel þekkt ferli sem allir geta kynnt sér. Það réttlætir þó ekki lyktina. Það má segja að Umhverfisstofnun hafi unnið mjög hægt í málinu sem er skaðlegt, bæði fyrir samfélagið sem verður fyrir menguninni og fyrir fyrirtækið sem bíður úrskurðar. Kannski voru of mörg tækifæri gefin og það er mjög eðlileg og skiljanleg reiði sem kemur upp hjá samfélögum þegar uppi er ástand af þessu tagi. Það vill enginn lifa í mengunarskýi og sérstaklega ekki með þeim líkamlegu kvillum sem fylgja og hafa verið raktir.

Lagaramminn var kannski ekki nægilega góður en auðvitað hefði öllum átt að vera þetta skiljanlegt frá upphafi. Kísilverksmiðjur eru að jafnaði ekki svona nálægt mannabyggð og það er ástæða fyrir því. Þessi kísilverksmiðja er kílómetra nær mannabyggð en sú verksmiðja sem ég fann dæmi um erlendis sem er hvað næst mannabyggð. Það er kísilverksmiðja í fylkinu Alabama í Bandaríkjunum en hún er umlukin trjám og þau hjálpa til við að fanga svifryk og mengun. Það þarf ekki að taka fram að engin tré eru í Helguvík.

Hér urðu mörg mistök á mörgum stigum. Umhverfisstofnun gaf ekki nægilega skýrt starfsleyfi sem tók ekki á mikilvægum þáttum mengunar. Sameinað sílikon setti upp ófullnægjandi búnað til hreinsunar á útblæstri og virðist líka hafa verið vanbúið til að takast á við þær áskoranir sem fylgdu rekstrinum með afleiðingum sem við þekkjum öll og var farið vandlega yfir. Að lokum má nefna að öll samskipti bæði fyrirtækisins og stjórnvalda við almenning í Reykjanesbæ voru með öllu ófullnægjandi.

Spurningin er hvernig samfélag á að taka á mistökum af slíku tagi í framtíðinni. Það er nefnilega þannig að stundum eru alvarleg mistök gerð í góðri trú. Ég legg til að við lærum af mistökunum og gerum ríkari kröfur til rekstraraðila fyrirtækja sem koma til með að vera í iðnaðarferlum sem gætu haft mengandi áhrif á umhverfið, en einnig ríkari kröfu til stofnana sem eiga að fylgjast með því.

Mikilvægi punkturinn er að við ræðum hvernig iðnvæðing á að fara fram í landinu. Það er krafa um uppbyggingu, það er krafa um fjölbreyttari atvinnuvegi og við munum ekki alltaf geta valið hreinustu og fínustu aðferðirnar. En það vill þannig til að brennisteinsdíoxíð og koltvísýringur geta vel verið auðlindir sem má nýta sé komið rétt fram við þær. Það að leyfa fyrirtækjum að blása mengun út í loftið er vitfirring. Verið er að sóa tækifærum á sama tíma og okkur öllum er stefnt í hættu, og þá vísa ég í fyrri umræðu um loftslagsvá. Svo er líka mjög auðvelt að stöðva útblástur á svifryki.

Það er alveg innan marka skynseminnar að halda áfram að byggja upp framleiðsluiðnað í Helguvík og víðar en við verðum að gera það á hátt sem samfélagið þolir, sem náttúran þolir og helst á þann hátt að verðmætin sem verða til í ferlinu séu eins mikil og vera ber. Við megum helst ekki halda áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið í með áliðnaðinn og fleira fram til þessa, að Ísland verði einhvers konar frumhreinsistöð fyrir ál og kísil og annars konar efni án þess að áframhaldandi verðmætasköpun lengra upp virðiskeðjuna eigi sér stað hér á landi.

Þegar er farið að gæta ýmissa áhrifa þess í hagkerfinu að Ísland er orðið frumframleiðsluland og því held ég að við þurfum að læra nokkrar lexíur til frambúðar. Ein er að vera miklu harðari á öllum umhverfisreglum og leyfa fyrirtækjum ekki að hefja rekstur, ekki einu sinni í tilraunaskyni, fyrr en búið er að staðfesta að aðferðirnar sem þau nota til hreinsunar á úrgangi, hvort sem það er út í andrúmsloftið eða á annan hátt, séu fullnægjandi. Önnur er að skýra á greinargóðan hátt frá því innan samfélagsins áður en farið er út í svona rekstur eða jafnvel uppbyggingu á slíkum rekstri með það fyrir augum að allir í samfélaginu viti að hverju þeir ganga og hvað felst í rekstrinum. Að sjálfsögðu þurfum við líka að fara að einbeita okkur að því að byggja upp verðmætari framleiðsluiðnað og ekki alltaf hanga í frumframleiðslunni. Við ættum miklu frekar að reyna að nýta álið sem við framleiðum á Íslandi, nýta hugvitið sem er til staðar og framleiða kanski eitthvað sem er verðmætara úti í heimi heldur en að hreinsa sílikon. Sílikon er vissulega gagnleg og mikilvæg afurð, en væri ekki betra að við flyttum út sólarsellur en hreint sílikon? Ég held að það sé lausnin sem við þurfum að ganga í áttina að. Það borgar sig ekki að halda áfram einhvers konar mengunaráráttu á kostnað samfélagsins.