149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[13:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég held að rétt sé að byrja á að þakka fyrir þessa góðu umræðu sem er hér í þingsal um þetta stórslys sem Helguvíkurverkefnið er í rauninni í alla staði þegar horft er á það, ekki bara þegar niðurstaða skýrslu Ríkisendurskoðunar liggur fyrir, og við erum að ræða hana, heldur líka hvernig staðið var að verkinu strax frá upphafi. Mér hefur þótt það fulláberandi í umræðunni sem ég vil kalla ákveðna meðvirkni með þessu, eiginlega undir þeim formerkjum að neyðin kenni nakinni konu að spinna, eða hvernig sem við getum orðað það, að þegar mikið liggi við í atvinnumálum á einstökum svæðum skipti voðalega litlu máli hvaða reglur gildi um það hvernig við stöndum að uppbyggingu. Það má aldrei verða svo.

Það má aldrei gleyma t.d. þeim varnaðarorðum sem við fengum í kjölfar hrunsins hvernig meðvirkni, andvaraleysi, gáleysi, gegnumsýrði samfélagið hjá okkur og hvernig við hunsuðum ítrekuð varnaðarorð um í hvað stefndi. Það sama á auðvitað við í þessu að það er ekki svo að við getum hunsað þær leikreglur sem við höfum ákveðið að starfa eftir þegar mikið liggur við. Það verður einmitt sérstaklega við þær kringumstæður þegar mikill þrýstingur er á að verkefni nái fram að ganga að gæta þess að vanda til þeirra. Og eins og niðurstaðan varð í þessu tiltekna verkefni var vissulega verr af stað farið en heima setið. Við sitjum uppi með verksmiðju sem er ekki starfandi, sem uppfyllir ekki þær kröfur sem til hennar eru gerðar og alls óvíst um hvort fari í gang að nýju eða ekki.

Það verkefni er kannski í grunninn lýsandi dæmi um hvað stjórnvöld eiga ekki að gera, það er að skipta sér af því hvers konar uppbygging eða hvaða verkefni nákvæmlega sé ráðist í. Ég held að Helguvíkurverkefnið sé nákvæmlega slíkt dæmi. Þar var alveg ljóst og lá fyrir þegar farið var af stað með Helguvíkurverkefnin að þegar var hafin uppbygging á öðru verkefni, þ.e. bygging álvers við Helguvík, sem var að keppa við hin verkefnin um raforku sem var af takmörkuðum skammti. Það verður ekki betur séð þegar maður horfir yfir málið í heild og alla þá umfjöllun sem verið hefur um það en að stjórnvöld hafi á þeim tíma markvisst beitt sér fyrir því að bregða fæti fyrir hið fyrrnefnda svo kísilverin tvö fengju forgang í uppbyggingunni, fengju þá að ganga fram fyrir hitt.

Nú ætla ég ekki að taka afstöðu til þess hvort hefði verið betra en vissulega er þetta sérkennilegt þegar horft er til umhverfisáhrifa þessara tveggja verkefna og horft er til þeirrar einföldu staðreyndar að kísilver losar u.þ.b. tífalt á við álver á hvert framleitt tonn. Það er vissulega sérstök forgangsröðun út frá umhverfissjónarmiðunum. En enn og aftur, það er kannski ekki það sem skiptir máli. Mínar skoðanir á því hvað hefði verið heppilegt eða rétt skipta engu máli í pólitíkinni heldur einmitt lærdómurinn af því að það er ekki okkar stjórnmálamanna að ganga fram með þeim hætti sem hér var gert. Það er ekki okkar að segja: Við viljum nákvæmlega þetta verkefni umfram annað. Við eigum að búa til skýrar, almennar og vandaðar leikreglur fyrir atvinnulífið til að starfa eftir, en reyna síðan að skipta okkur sem minnst af því hvaða verkefni veljast undir þeim leikreglum og kröfum sem við gerum. Þarna held ég að hafi verið farið út fyrir öll mörk, þarna hafi allar leikreglur verið hunsaðar, ekki síst af stjórnvöldum sjálfum eins og þessi ágæta skýrsla sýnir svo vel.

Ég held að það megi vera okkur víti til varnaðar horft til framtíðar að við endurtökum þetta ekki og gleymum okkur ekki í því. Við setjum leikreglurnar. Við skilgreinum kröfurnar, en hvaða atvinnugreinar veljast síðan til að starfa eftir þeim leikreglum (Forseti hringir.) er annarra að ákveða.