149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[13:18]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ljóst að farið var í þetta verkefni af algerri vanþekkingu og samfélagið var ekki undir það búið. Þetta ferli sýnir okkur að enn skortir tilfinnanlega skýra stefnu þegar kemur að uppbyggingu iðnaðar og raforkunýtingar á Íslandi. Í hvað viljum við nýta raforkuna okkar? Hvernig iðnað viljum við byggja upp? Hvar viljum við byggja hann upp? Hvaða áhrif hefur hann á umhverfið? Hvaða áhrif hefur hann á samfélagið? Þá minni ég á að við verðum að vanda okkur við ákvarðanir því að raunveruleikinn er sá að erfitt er að hætta við þegar allt er komið í gang. Því miður bitnaði allt það fúsk sem þarna átti sér stað á okkur öllum, en fyrst og fremst auðvitað á þeim íbúum sem urðu fyrir verulegum óþægindum eða jafnvel heilsubresti.

Það er auðvelt að standa hér eftir á og dæma, sérstaklega ef haft er í huga að ákvarðanir um þessa uppbyggingu voru teknar rétt eftir hrun þegar örvænting ríkti í samfélaginu, en það afsakar þær hins vegar ekki. Við hljótum að velta fyrir okkur hvort enginn hafi hugsað: Er þetta sniðugt? Var enginn sem hugsaði: Er snjallt að setja tvö kísilver og álver við hliðina á sorpbrennslu og mjölbræðslu, steinsnar frá stórum alþjóðaflugvelli og aðeins kílómetra frá byggð sem stöðugt fikrar sig nær? Eða: Það er ekki búið að hanna verksmiðjuna, við vitum ekki hverjir eiga hana eða stjórna henni og það er ekki einu sinni búið að tryggja rafmagn. Kannski þurfum við aðeins að staldra við. Auðvitað voru einhverjir sem hugsuðu þetta og gerðu jafnvel athugasemdir en því miður virðist ekki hafa verið hlustað á þau varnaðarorð, sem er ámælisvert eins og Ríkisendurskoðun bendir á í skýrslu sinni.

Það er falleg hugmynd að nýta okkar hreinu orku til að búa til það sem þarf til þess að geta nýtt aðra hreina orkuauðlind. Á þeim forsendum skil ég að áhugi hafi verið á verkefninu, en því miður virðist sem einu fyrirtæki hafi tekist að taka þá góðu hugmynd og eyðileggja hana, einfaldlega með þekkingarleysi, óheiðarleika og fúski. Að sjálfsögðu getum við sem samfélag aldrei alveg varist svona óheiðarleika, en við verðum að gera betur.

Ljóst er af skýrslu Ríkisendurskoðunar að bæði klikkaði ýmislegt í umsóknarferlinu sem hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum en einnig virðist ekki hafa verið staðið við margt sem lofað var, eins og t.d. að bæði framleiðslubúnaður og hreinsivirki yrðu af nýjustu og bestu gerð og notuð yrði besta aðgengilega tækni við framleiðsluna. Þá kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Kísilverksmiðja Sameinaðs bolmagn var ekki fullbúin þegar hún tók til starfa og reyndist ekki í stakk búin til að starfa í samræmi við undangengið mat á umhverfisáhrifum, útgefin starfsleyfi og þau markmið sem stefnt var að samkvæmt samningi um ívilnanir.“

Þá koma í framhaldi þessa texta mjög mikilvæg tilmæli frá Ríkisendurskoðun:

„Þá telur stofnunin brýnt að umhverfis- og auðlindaráðuneyti kanni í samstarfi við Umhverfisstofnun og önnur stjórnvöld hvort gera þurfi skýrari eða hertar kröfur við útgáfu starfsleyfa vegna starfsemi sem getur haft mengun í för með sér. Mikilvægt er að fagleg, tæknileg og fjárhagsleg geta umsækjenda sé metin með tilliti til þeirra skilyrða sem þeim er ætlað að uppfylla samkvæmt lögum og starfsleyfinu sjálfu.“

Í skýrslunni kemur einnig fram að þær stofnanir hafa dregið einhvern lærdóm af ferlinu og breytt nokkuð starfsháttum sínum þótt enn vanti nokkuð upp á. Í því samhengi vil ég minna á að kísilframleiðsla er í eðli sínu mjög flókin og vandmeðfarin. Við höfum þó dæmi um hvernig hægt er að gera hlutina vel, eins og t.d. í Noregi. Staðreyndin er hins vegar að á þeim tíma var engin þekking um þetta framleiðsluferli á Íslandi. Það mætti því einnig velta því upp hvort ekki hefði verið æskilegt að sækja þekkingu og reynslu út fyrir landsteinana, leita til erlendra sérfræðinga. Þó að við Íslendingar þykjumst vita allt best er eina vitið ef á að fara að byggja upp nýjan iðnað að sækja bestu mögulegu þekkingu, ekki síst þegar verið er að ræða um mengandi iðnað eins og í þessu tilfelli.

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að stofnanir ríkisins sem koma að þessum þáttum geti gengið tryggilega úr skugga um að aðilar sem sækjast eftir því að starfrækja mengandi iðnað hafi burði til að uppfylla þau skilyrði sem þeim eru sett samkvæmt lögum.“

Þarna langar mig til að leggja sérstaka áherslu á að mikilvægt er stofnanir ríkisins „geti gengið tryggilega úr skugga um“.

Nýlega kom upp mál hér sem tengist úrskurði sem féll varðandi umhverfismat á fiskeldi. Í umfjöllun um það mál kom oftar en einu sinni fram að stofnanirnar sem veita leyfin, sem eru að hluta til sömu stofnanir og komu að þessu máli, og eiga að hafa eftirlit með framkvæmdum og rekstri telja sig ekki hafa bolmagn til þess vegna skorts á fjármögnun. Sama vandamál er því miður uppi hjá sveitarfélögunum, samkvæmt þessum skýrslum, sem hafa mörg hver hreinlega ekki getu til að sinna almennilega skyldum sínum gagnvart framkvæmda- og byggingarleyfum. En það eru heldur ekki boðlegar aðstæður fyrir fjárfestingar og ekki vænlegt til að byggja upp iðnað og ekki eru það boðlegar aðstæður fyrir íbúa hér á landi eða náttúru. Hvort tveggja, þ.e. staðan gagnvart stofnunum og gagnvart sveitarfélögunum, skrifast á stjórnvöld og þingið sem úthluta fjármögnun til reksturs stofnananna og sömuleiðis til sveitarfélaganna, þótt það sé á óbeinni hátt. Þetta er því lærdómur sem þingheimur verður einnig að taka til sín og er tækifæri til að horfa á það í þeirri fjárlagagerð sem við stöndum í núna að tryggt verði að ráðuneyti og stofnanir sem veita (Forseti hringir.) leyfi og sinna eftirliti hafi nægjanlega burði til að sinna lögbundnum verkefnum sínum og minnka (Forseti hringir.) þannig líkurnar á mannlegum mistökum.

Frú forseti. Ég ítreka mikilvægi þess að við vöndum okkur.