149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[13:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um skýrslu þessa. Það er mjög mikilvægt að þegar svona mikilvægir hlutir fara út af sporinu eins og þarna gerðist séu þeir gerðir upp með skýrum hætti og menn reyni að læra af því. Kannski þarf ekki mörgu að bæta við þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag en ég nota tækifærið og hnykki á nokkrum punktum.

Það er vitanlega ljóst að það var farið mjög hratt í undirbúning og að ná því í gegn að þessi starfsemi færi af stað. Ágætlega hefur komið fram hér að í aðdraganda þessa var ákveðið ástand í samfélaginu á Suðurnesjum sem menn vildu bregðast við, en það réttlætir samt ekki að menn fari fram úr sér og það réttlætir ekki að menn byggi eitthvað á sandi sem þarf svo sannarlega traustari stoðir undir.

Við höfum líka heyrt hér og séð í fjölmiðlum og annars staðar að það eru málaferli í gangi. Það eru ásakanir um svik og pretti sem þarf að sjálfsögðu að leiða til lykta og gera það eftir viðurkenndum aðferðum.

Það sem er áhugavert við söguna og þarf að læra af þessu, það er margt að læra að sjálfsögðu, er m.a. það að menn mega ekki fara fram úr sér, það má ekki keyra svo hratt á eitthvert verkefni að varnaðarorðum, girðingum eða slíku sé ýtt úr vegi þannig að menn nái þeim árangri sem þeir ætla sér. Það hefur ágætlega verið farið yfir það hér í dag.

En við megum á sama tíma ekki, ég undirstrika það, ef einhver sér þetta sem tækifæri til þess, herða svo á lögum og reglum eða herða svo á þeim ferlum sem fjárfestar þurfa að fara í gegnum að þeir sjái sér ekki hag í því eða færi á því að fjárfesta áfram á Íslandi. Ég held að þess sé kannski ekki þörf. Ég held að það sé meiri þörf á því að við virðum og nýtum þá ferla sem við höfum í dag fremur en, ef einhverjir sjá þetta sem tækifæri til þess, að herða á öllu sem hægt er að herða á. Mörgum finnst nógu flókið að fjárfesta eða gera eitthvað á Íslandi í dag.

Það er mikilvægt að þetta mál verði leitt til lykta og að tekin verði ákvörðun um það hvort þessi verksmiðja fari í gang aftur, hvort hún verði rifin og seld, eða hvað verður. Í því ferli öllu saman verður að sjálfsögðu að gæta að málefnalegum ástæðum og það verður líka að virða vilja íbúanna. Við verðum á sama tíma að velta því fyrir okkur hvort aðstæður í samfélaginu séu með þeim hætti að hægt sé að nota þessa tækni eða fyrirtækið eða reksturinn einhvers staðar annars staðar með betri árangri með því að fara rétt að hlutunum. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, við hljótum að þurfa að virða vilja íbúanna sem hafa verið mjög skýrir varðandi þetta mál.

Það er mikilvægt að horfa til langs tíma þegar við förum í framkvæmdir, hvort sem það eru þessar eða aðrar. Það er mikilvægt að horfa til langs tíma þegar við gerum upp hlutina. Það er ekki nóg að læra. Við verðum líka að reyna að sjá fyrir hverjar afleiðingarnar eru af lærdómnum sem við drögum. Við verðum að passa okkur á því að búa ekki þannig um hnútana að það samfélag sem á í hlut verði skertara eða verra eftir. Við verðum að reyna að sjá heildarmyndina.

Hér nefndi Þorsteinn Víglundsson ágætlega þá breytingu sem varð á tíðarandanum eða samfélaginu í aðdraganda þess að þetta fyrirtæki fór af stað. Það voru allir búnir að mála álver svörtum litum, ef má orða það þannig, það var eitthvað ljótt, það mátti ekki tala um það. Það voru ekki bara stjórnmálamenn sem voru búnir að lýsa því yfir að álver væru vond. Ég tek fram að ég er ósammála því. Álver eru ekkert vond, þau eru miklu betri á Íslandi en á mörgum öðrum stöðum. Það voru líka þeir sem seldu orku, orkusalarnir voru sjálfir búnir að setja sér þau viðmið eða markmið að reyna að koma orkunni í eitthvað sem þeir töldu grænna jafnvel, sem var vinsælla. Þar af leiðandi gekk erfiðlega að mörgu leyti að halda áfram með þær hugmyndir sem uppi voru varðandi álver. Við megum ekki láta stjórnast af umræðunni, af tilfinningum eða dægurþrasinu, hvort sem það er orkusalar eða stjórnmálamenn.

Hæstv. forseti. Ísland er ríkt að orku eins og margoft hefur komið fram og okkur ber að sjálfsögðu að nýta hana sem best. En ég tel og ætla að koma því á framfæri hér að lokum, virðulegur forseti, að hvort sem það er fyrir íbúa á Reykjanesi eða aðra landsmenn eigum við að sjálfsögðu að nýta þá orku sem við höfum á Íslandi til góðra hluta.