149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[13:47]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrir athyglisverða umræðu þar sem þingmenn hafa farið vítt og breitt yfir sviðið í málefnum Sameinaðs sílikons og starfsleyfa verksmiðjunnar.

Í fyrri ræðu setti ég aðdragandann að tilkomu verksmiðjunnar í sögulegt ljós. Kenndi ég því þar um að ýmsar aðstæður á svæðinu, þar helst brottför hersins 2006 og atvinnuleysi í kjölfarið og áralangt ákall stjórnmálanna um uppbyggingu stóriðju á svæðinu, hefðu skapað ákveðnar aðstæður fyrir fljótfærni sem stundum, og oft, leiðir af sér mistök.

Herra forseti. Eftir alla þá þrautagöngu get ég þó ekki varist því að hrósa íbúum á svæðinu því að væntingarnar sem búið var að byggja upp voru miklar, ekki bara um fleiri störf heldur um vel launuð störf. Vonbrigðin voru því mikil og aðdáunarvert að sjá hvernig íbúarnir hafa tekist á við öll þau vonbrigði. Þegar væntingar voru í hæstu hæðum og hvert áfallið eftir annað reið yfir tengt gangsetningu, starfsemi og rekstrarstöðvun verksmiðjunnar héldu íbúar Suðurnesja ró sinni. Því verður í ljósi reynslunnar að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau leyfi ekki gangsetningu mengandi stóriðju án vandaðrar skoðunar og undirbúnings.

Herra forseti. Nú búa sömu íbúar, sem horfðu upp á mikið atvinnuleysi fyrir 12 árum eftir brottför hersins og enn meira eftir hrun, við andvaraleysi stjórnvalda á nýju og allt öðru sviði. Íbúafjölgun á Suðurnesjum síðustu árin er án nokkurra fordæma hér á landi og því kalla íbúar Suðurnesja eftir hraðari uppbyggingu innviða á sviði heilbrigðismála, á sviði skólamála, á sviði lögreglumála, á sviði almenningssamgangna, svo fátt eitt sé nefnt. Íbúar Suðurnesja kalla eftir uppbyggingu á þeim sviðum sem geti þá verið meira í takt við hina miklu og fordæmalausu fjölgun íbúa, en þeir mæta litlum skilningi stjórnvalda.

Í lokin vil ég taka undir orð margra hv. þingmanna sem hafa talað í dag um málefnið: Við verðum að læra af þessu máli og það á fleiri sviðum en einu.