149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[13:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið athyglisverð og góð umræða og ber að þakka fyrir hana. Mér hefur þótt athyglisvert að fylgjast með því hvernig hv. Alþingi hefur tekið á þessu máli. Ég held að á engan sé hallað ef ég hrósa sérstaklega hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson sem hefur verið ötul við að biðja um þær skýrslur sem liggja hér undir, bæði Ríkisendurskoðunar og svo þessa skýrslu sem við ræðum hér nú. Í fyrra var haldinn opinn fundur hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem ég bað um sem fulltrúi í þeirri nefnd þá. Það var einmitt athyglisvert að sjá hvernig sá fundur fór fram. Það var mikil samstaða meðal þingmanna um að komast til botns í málinu og komu margir fulltrúar mjög marga hagsmunaaðila á fundinn, fulltrúar íbúa, fyrirtækisins og ýmissa stofnana.

Ég dreg þá ályktun af því hvernig þingið hefur tekið á málinu eftir að það kom upp að við getum lært mjög mikið af því og vonandi þurfum við ekki að brúka þann mekanisma mjög oft og helst ekki. En það er ágætt að vita að við getum tekist á við svona stórmál sem koma upp.

Ýmislegt hefur verið sagt hér sem er óþarfi að tvítaka eða þrí- eða fjórtaka eða jafnvel fimmtaka í minni ræðu, en það er kannski ágætt að draga samt aftur fram aðeins úr sögunni hve ofboðsleg pressa var á framkvæmdunum þarna, ekki endilega bara á þessum framkvæmdum í Helguvík, heldur hvaða framkvæmdum sem er. Við sem fylgdumst með umræðunni þá munum gífuryrtar auglýsingar og greinar gegn þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, af því að hún þótti á einhvern hátt standa gegn uppbyggingu á þessu iðnaðarsvæði. Það kom svo í ljós að það var alls ekki þannig heldur voru hlutirnir einfaldlega ekki tilbúnir, þá er ég að tala um uppbyggingu á svæðinu almennt, ekki sérstaklega þessa verksmiðju hér.

Lærdómurinn sem við megum draga af þessu er að við eigum að setjast yfir málin og vinna þau vel áður en við förum í þau. Við eigum ekki að láta pressuna ráða för og eina stóra svarið sem á að bjarga öllu er oft og tíðum ekki rétta svarið.

Hæstv. umhverfisráðherra fór í sinni ræðu ágætlega yfir hluta þess lærdóms sem við m.a. drögum af þessu, þó að það sé ekki bara af þessu máli, varðandi það sem er fram undan í endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ég fagna því. Ég held að það sé mjög þarft að setjast yfir þau mál og skýra margt þar betur og gera þau lög betur úr garði.

Hæstv. ríkisstjórn hefur líka sett á fót, svo ég færi þetta mál aðeins víðara út af því að ég vil draga lærdóm af því á öllum sviðum, nefnd sem er að vinna að orkustefnu. Þetta tengist því líka. Þetta tengist þeirri hugsun sem hefur allt of lengi verið við lýði hér í samfélaginu að tengja einstaka framkvæmd einstökum kosti í orkuöflun. Ég hef talað fyrir því að við setjumst vel yfir þau mál, mótum okkur þá orkustefnu sem við viljum sjá til langrar framtíðar sem og nær í tíma. Sú orkustefna verði fyrst og fremst út frá grænum áherslum, hvernig við getum staðið við okkar skuldbindingar þegar kemur að loftslagsmálum og líka byggt upp grænt og gott samfélag. Í því skyni eiga stórnotendur ekki að vera efstir á blaði. Ég hef talað fyrir því að við ættum kannski bara að gera hlé á því að veita orku til stórnotenda sama hvar þeir eru og hvers eðlis þeir eru meðan við vinnum þessa orkustefnu, því að öll þessi mál tengjast (Forseti hringir.) og það er gott að sjá hve víðtækan lærdóm stjórnvöld núna eru að draga af þessu.