149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[14:21]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um skýrslu heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar sem samþykkt var á hinu háa Alþingi í apríl 2016. Skýrslan er aðgengileg, á læsilegu máli, greinargóð og fróðleg og ber að þakka hæstv. ráðherra fyrir hana. Ég mun hlaupa hér á nokkrum atriðum en tíminn setur okkur stífar skorður.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er geðheilbrigðisvandinn einn stærsti heilbrigðisvandi samtímans. Geðheilbrigðismál hafa sérstöðu, þetta er víðfeðmur málaflokkur sem snertir með einum eða öðrum hætti flesta þætti mannlegs lífs. Því má segja að glíman við geðheilbrigðisvanda sé ekki bara einstaklingsins sem í hlut á, ekki bara andlega líðan viðkomandi og sú hlið málsins, þetta kemur fljótt niður á líkamlegri heilsu, hefur áhrif á félagsleg samskipti, vinahópa, nám og atvinnu. Þetta hefur áhrif á öll lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem og samfélagsins í heild.

Herra forseti. Eins og fyrr segir er breiddin mikil þegar um er að ræða geðheilsuvandamál og nálgun vandans og meðferð kallar á sérfræðiþekkingu, alúð og mikla þjálfun í að finna úrlausnir við hæfi. Undir geðheilsuvanda flokkast m.a. raskanir eins og kvíði, þunglyndi, þroskaraskanir, fíknivandi og ýmislegt sem færist yfir á efri árum, oft kallað elliglöp, og svo hinir alvarlegu sjúkdómaflokkar.

Geðræn vandamál einstaklinga koma jafnan snemma í ljós. Samkvæmt skýrslunni er helmingur geðraskana kominn fram á táningsárum og um 75% raskana komnar fram þegar einstaklingur er á þrítugsaldri.

Í okkar margbreytilega heimi og oft og tíðum flóknu tilveru hendir það margan að lenda á refilstigum og í vanda, að þurfa að fást við andlega vanlíðan eða heilsubrest vegna ýmissa áfalla eða álags. Þannig er talið að einn af hverjum fjórum glími á einhverjum tíma æviskeiðsins við geðrænan vanda.

Skýrslan vísar nokkuð til þingsályktunarinnar í ýmsum efnum, m.a. um aðgerðir gegn fordómum og mismunun gagnvart þeim sem glíma við eða hafa glímt við geðheilbrigðisvanda, þessir einstaklingar séu oft jaðarsettir í samfélaginu, fái á sig stimpil og jafnvel ranglega álitið að fólk sem einhvern tíma hefur glímt við geðröskun eigi sér ekki batavon og sé ofurselt sjúkdómnum. Mikilvægt er því að vinna markvisst gegn fordómum og mismunun af þessu tagi. Hvatt er til þess að ríki og sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi og ráði fólk sem lent hefur utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana til starfa á stofnunum sínum. Mín reynsla er sú að flestir stjórnendur séu jákvæðir gagnvart tækifærum sem þessum. Hins vegar eru innviðir opinberra stofnana svo veikir nú eftir mörg mögur ár undanfarið að fjármagn, þekkingu og fræðslu skortir — en ekki viljann.

Aðgerðaáætlun í þessu efni er til, en vinna við hana ekki hafin. Vonandi verður það að veruleika hið fyrsta og má ekki tefjast.

Herra forseti. Sveitarfélögin eru í lykilaðstöðu til að efla geðheilsu almennings. Þau hafa á sinni hendi ýmsa þá þjónustu og starfsemi sem lýtur að daglegu lífi fólks, m.a. þá þætti sem hafa mikla þýðingu fyrir geðheilbrigði margra viðkvæmustu hópanna, unga fólksins. Þar má nefna leik- og grunnskóla, félagsþjónustuna, barnavernd, húsnæðismálin og atvinnumál, samgöngur og skipulag.

Dæmi er um sveitarfélög sem hafa hrundið af stað mjög góðum verkefnum á þessu sviði og nærtækast fyrir mig er auðvitað að nefna Akranes en þau eru mun fleiri.

Það er aldrei of oft hamrað á mikilvægi þess að hafa skýran skilning á áhættuþáttum geðheilbrigðis og hvað hægt er að gera til að vernda og efla geðheilsu í samfélaginu. Þar skipa öndvegi markvissar forvarnir og snemmtæk, heildstæð úrræði um leið og erfiðleika verður vart.

Embætti landlæknis hefur hvatt til geðræktarstarfs í samræmi við nálgun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og hefur hvergi dregið af sér. Í samvinnu við embættið hafa orðið til margir heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskólar og jafnvel heilsueflandi sveitarfélög og það er vel. Á því þarf að verða framhald en því miður verður hlutskipti þessara verkefna oft það að lenda aftarlega á forgangslista sveitarfélaga þegar velja þarf það sem brýnast er talið því að oft fylgja þessu fjárhagsleg útgjöld. Við erum nefnilega enn dálítið föst í því að líta á heilsueflingu og forvarnir sem útgjöld en ekki fjárfestingu.

Eitt af áhersluatriðum í heilbrigðisáætluninni er efling geðheilbrigðisþjónustunnar um landið allt sem skort hefur á og nefnt er að nýta megi fjarheilbrigðisþjónustu og tækni á því sviði til að ná þeim markmiðum betur og það er áhugavert.

Þörf íbúanna fyrir geðheilbrigðisþjónustu hefur ekki verið metin með formlegum hætti frekar en fyrir aðra heilbrigðisþjónustu í landinu. Það er auðvitað brýnt og vonandi sjáum við einhver teikn um það í nýrri heilbrigðisstefnu ráðherra. Það er auðvitað eðlilegt að kortleggja þörf fólks fyrir geðheilbrigðisþjónustu og heilbrigðisþjónustu almennt með skipulögðum hætti og reglulega á landinu öllu til að geta mætt þörfinni betur.

Herra forseti. Annað markmið geðheilbrigðisáætlunarinnar er að styrkja heilsugæsluna og fjölga sálfræðingum til að starfa þar. Þetta er sérstaklega góð þróun og þarna verður að fylgja málum vel eftir. Einn af hverjum þremur sem leita til heilsugæslunnar glímir við geðheilsuvanda og þessi hópur hefur hreinlega verið hornreka. Samkvæmt áætlunum eiga sálfræðingar að vera starfandi á öllum heilsugæslustöðvum í landinu. Það eru sannast sagna ekki mörg ár síðan þetta þótti harla fráleitt, að sálfræðingar ynnu á heilsugæslustöð og tækju á móti sjúklingum, að þeir réðu við þau verkefni, hefðu eitthvað til málanna að leggja. Fjölmargar rannsóknir sýna að meðferð hjá sálfræðingi er betri lausn við tilteknum vanda, meðferðarheldnin betri en lyfjameðferð. Það tekur kannski lengri tíma en er betri lausn til frambúðar. Lyf eru góð, skipta sköpum um lífsgæði þegar þau eiga við.

Lyfjanotkun Íslendinga er annars alveg skefjalaus og vekur heimsathygli. Læknar ávísa meira af róandi lyfjum, svefnlyfjum, þunglyndislyfjum og ofvirknilyfjum en þekkist annars staðar á byggðu bóli. Við þurfum að fá svör við því af hverju þetta er svona. Þau höfum við ekki í dag. Í skýrslunni er ýjað að einhverjum skýringum, líkindum eða kenningum, en vandaðar, faglegar úttektir vantar. Þær þurfum við. Það á að vera hluti af okkar geðheilbrigðisáætlun.

Meginmarkmið lýðheilsustefnu frá árinu 2016 er sú að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030. Við spjörum okkur býsna vel en ef við ætlum að ná þessu markmiði (Forseti hringir.) verðum við að bretta upp ermar.