149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[14:29]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og þessa yfirferð. Það er gott til þess að hugsa að heilbrigðisráðherra hefur kortlagt stöðuna og ætlar í framhaldi í aðgerðir í málaflokknum. Leiðarstefin eru mannréttindi og valdefling þar sem notendamiðuð þjónusta í nærumhverfi gegnir lykilhlutverki. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram því að það er sama hvert litið er; ákall er um aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Þar skiptir aðkoma frjálsra félagasamtaka máli. Ég nefni Hugarafl sérstaklega, en starfsemi Hugarafls er í fullkominni óvissu nú um stundir.

Í rauninni á þetta ákall ekki að koma á óvart þar sem kostnaður og aðgengi vegna sálfræðiþjónustu fullorðinna er áfram undanskilinn almennri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga og getur verið mjög mikill. Algengt er að hver meðferðartími hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi kosti á bilinu 12.000–15.000 kr. Nú þegar hafa nokkrir framhaldsskólar brugðist við ákallinu og kaupa þjónustuna af einkaaðilum eða ráða sálfræðinga inn í skólana.

Samkvæmt skýrslu Menntamálastofnunar um brotthvarf í framhaldsskólum réðu tveir skólar sálfræðing í hálft starf og mælist árangurinn af því jákvæður, en það er hægt að gera betur. Í Sálfræðingafélagi Íslands eru um 550 sálfræðingar í ýmsum störfum og á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands má sjá að aðeins níu sálfræðingar eru með rammasamning við Sjúkratryggingar Íslands. Þetta eru sálfræðingar sem huga að börnum og unglingum. Átta þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu og einn á landsbyggðinni.

Mig langar að velta hér upp þeirri hugsun hvort ástæða þess að ekki er búið að auka aðgengi að sálfræðiþjónustunni með því að fella hana undir hatt Sjúkratrygginga sé sú að menn óttist að of margir muni sækja sér aðstoð líkt og reyndin var þegar sjúkraþjálfarar fengu samning. Þá margfaldaðist fjöldi þeirra sem sóttu sér sjúkraþjálfun. Ég get ekki varist því að hugsa þessa hugsun.

Það hefur komið skýrt fram að auka eigi geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar, en þrátt fyrir það virðist ganga hægt að fjölga stöðugildum til að anna eftirspurn. Biðlistar eru langir og hefur starfsfólk heilsugæslunnar beint einstaklingum sem þurfa á þjónustunni að halda að sjálfstætt starfandi aðila. Þar er styttri biðtími. Samt er því áfram haldið fram, réttilega, að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu eigi að vera jafn sjálfsagt og aðgengi að annarri heilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar. Væntanlega verður fólk áfram að bíða eftir nauðsynlegum úrbótum þar sem heilsugæslustöðvar landsins geta rétt svo haldið sjó þótt þær reyni að forgangsraða málum. Eftir stendur spurningin: Er verið að flækja málin um of eða er um nauðvörn að ræða?

Ég velti því enn og aftur upp spurningunni hvort réttara sé að breyta regluverkinu þannig að öll geðheilbrigðisþjónusta verði felld undir Sjúkratryggingar Íslands, líka sálfræðiþjónusta. Þá geta allir sótt sér viðeigandi og sjálfsagða aðstoð án þess að vera í framhaldsskóla eða háskóla. Ég kallaði eftir svörum um þetta atriði eins og ég hef margsinnis gert áður.

Sálfræðiþjónustan er mikið að færast yfir á það sem kallað er fyrsta stig í heilbrigðiskerfinu, þ.e. heilsugæsluna, eins og hér hefur komið fram, enda er mikilvægt að grípa snemma inn í, áður en vandinn verður alvarlegri. En hvað gerist svo ef um sérhæfðari vanda er að ræða? Einstaklingi er vísað til geðsviða þar sem þau starfa eða sjálfstætt starfandi sálfræðinga eins og ég kom inn á áðan. Höldum okkur við geðsviðin. Það er ekkert gefið að einstaklingur sem leiti þangað fái viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Það er ekkert gefið. Geðsviðin þurfa nefnilega líka að forgangsraða og ég velti fyrir mér: Hversu mikill þarf vandinn að vera eða hvernig ætlum við yfirleitt að skilgreina hvort, hvenær eða hvernig fólk fær þjónustu?

Það sem er hvað mest sláandi er að sálfræðingar með alla sína starfsreynslu og þjálfun og stofu eins og Litlu kvíðameðferðarstöðina munu ekki geta sóst eftir því að komast á rammasamning Sjúkratrygginga Íslands þrátt fyrir að starfa einvörðungu með börnum og ungmennum og þeir njóta handleiðslu og teymisvinnu mjög reyndra sálfræðinga bæði hérlendis og erlendis.