149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[14:34]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka heilbrigðisráðherra fyrir þessa skýrslu og umræðuna um skýrsluna. Ljóst er að það er mikill vilji til að gera vel í málaflokknum. Það er verið að einhenda sér í gríðarlega mörg mjög mikilvæg verkefni og ekki síst er verið að reyna að halda utan um öll þau fjölbreyttu verkefni sem um er að ræða. Það sem mig langar kannski að nefna í upphafi er menntakerfið okkar af því að brýnt er að það sé staður þar sem við getum gert betur í geðheilbrigðismálum. Bæði á ég auðvitað við að auka vellíðan barna okkar í menntakerfinu en einnig að auka þekkingu starfsmanna í skólum á geðsjúkdómum og einkennum kvíða og þunglyndis ásamt því að hafa þekkingu og teymi til að grípa inn í þegar þörf er á fyrstu stigum vandans.

Brotthvarf úr skólum er mest á meðal þeirra sem koma verr út hvað varðar líðan og námsgetu. Það er ótrúlega mikilvægt að við einhendum okkur í að styðja við ungt fólk með andlega erfiðleika og námserfiðleika til áframhaldandi skólagöngu. En skólinn þarf að hafa þessa þekkingu til að halda utan um nemendur og átta sig á varúðarmerkjum og geta unnið með foreldrum og sérfræðingum o.s.frv. Með því að geta brugðist við og vera með augun opin fyrir fyrstu einkennum er oft hægt að grípa inn í, t.d. kvíða sem er ekki orðinn að geðheilbrigðisverkefni en getur fljótt orðið það ef ekki er brugðist við. Það þarf að vera teymi fólks sem kemur að einstaklingi með slík einkenni eða geðvandamál sem þarf aðstoð og við þurfum að vera óhrædd við að tengja saman aðila í þannig teymi og nýta okkur það hversu smá við erum. Stundum þegar við horfum á kerfið utan frá og tölum við aðila sem hafa nýtt sér kerfið, notendur þess, er eins og það sé hannað fyrir samfélag sem hefur ekki haft aðgengi að neinni tækni eða að landið sé einfaldlega svo stórt að það sé algerlega ómögulegt að ná samþættingu milli skóla, ríkis, frjálsra félagasamtaka og annarra sérfræðinga.

En það er fleira sem við þurfum að huga að þegar við höldum áfram að mynda stefnu og gera fleira í geðheilbrigðismálum, það er að gleyma ekki að horfa á stöðu ungra drengja og ungs fólks á örorku. Hlutfallið er komið upp í 41% í fjölgun öryrkja í hópi ungra karla á síðustu sex árum. Það er gríðarlega há tala. Geðraskanir eru langalgengasta ástæða örorku á Íslandi. 38% öryrkja á Íslandi eru það á grundvelli geðgreiningar. Þarna getum við líka tengt við menntakerfið og stöðu ungra drengja í því. Þegar við horfum á slakan árangur ungra drengja í menntakerfinu sem týnast oft og vantar nýjan hugsunarhátt við kennslu þurfum við að þora að breyta og þora að hugsa upp á nýtt, ekki síst geðheilsunnar vegna.

Eitt er það sem við þurfum öll að hugsa um þegar við fjöllum um ýmis mál eins og skýrslu um geðheilbrigðismál, en það er hversu mikilvægt það er að skoða samhengi hlutanna. Á það skortir almennt hjá okkur öllum, það er að þora að stíga aðeins til baka og sjá stóru myndina. Við leggjum áherslu á ákveðin mál. Það er mikill vilji til bættrar geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum, en við eigum stundum erfiðara með að stíga aðeins til baka og horfa á stærri mynd og stærra samhengi hlutanna. Á sama tíma og við ræðum stöðu ungra drengja í menntakerfinu þurfum við líka að taka inn í myndina fjölda ungra drengja eða ungra karlmanna sem taka sitt eigið líf eða eru nýir á örorku.

Það er þetta samhengi hlutanna sem mig langaði aðeins að nefna hér. Við þurfum að þora að spyrja spurninga og velta fyrir okkur grunninum, menntakerfinu og skoða fleiri anga því að þegar við ræðum geðheilbrigðismál er í svo ótrúlega mörg horn að líta. Og kerfið er flókið. Ekki síst er það verkefni og áskorun fyrir ráðherra sem ég veit að er að reyna að ná utan um og skoða stóru myndina, en notendur finna líka fyrir því hvað kerfið í dag er flókið. Þegar fólk fær sjúkdóm, fótbrotnar, greinist með krabbamein er ákveðin leið sem kerfið býður upp á, ákveðin þjónusta, en þegar um geðvandamál er að ræða bendir hver á annan. Það er kannski vandinn.

Í skýrslunni eru tvær myndir sem sýna okkur í rauninni fjölbreytileikann og hvað við eigum margar gríðarlega góðar og öflugar stofnanir og frjáls félagasamtök, en þarna vantar leiðina. Það er næsta verkefni okkar. Það er svo rétt sem í skýrslunni segir, virðulegi forseti, ef ég fæ að vitna í hana:

„Geðræn vandamál koma oft snemma í ljós og geta haft mikil og langvarandi áhrif á líf fólks. Um helmingur geðraskana er kominn fram á táningsárum og 75% geðraskana eru komnar fram þegar einstaklingar eru á þrítugsaldri.“

Þarna þarf ferillinn fyrir börn að vera afskaplega skýr og betri svo það sé hægt að ganga strax í vandamálið og þá skiptir sjónarhorn notendanna gríðarlega miklu máli. Við þurfum að ræða stöðu aðstandenda í kerfinu öllu og gera betur í þessu líkt og mörgu öðru þegar kemur að framkvæmdinni og við búum til kerfið.

En það er gríðarlega margt gott í skýrslunni. Ég hvet ráðherra til allra góðra verka í þessu og ég veit að hér inni er mikil samstaða um að gera enn þá betur þegar kemur að geðheilbrigðismálum.