149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[14:41]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Geðheilbrigðisáætlun sem var samþykkt á Alþingi árið 2016 hafði það meginmarkmið að auka vellíðan og bæta geðheilsu landsmanna og stuðla að virkari samfélagsþátttöku einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra. Við sjáum að vinnu að einstaka markmiðum miðar í sumum tilfellum ágætlega en í flestum tilfellum er hún rétt að byrja. En það sem skortir hvað mest er að við sjáum ekki hvernig vinnu miðar að meginmarkmiðum áætlunarinnar; samþætting á þjónustu við einstaklinga með geðraskanir, að bæta uppeldisskilyrði barna þannig að stuðlað sé að vellíðan þeirra, að tryggja að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Ég hef nefnilega áhyggjur af því að þótt okkur miði áfram í vinnu við framkvæmd einstakra markmiða kemur hvergi fram í skýrslunni hvernig árangur verði mældur, því að árangur er bara hægt að mæla út frá líðan og geðheilsu notenda þjónustunnar. Það hvernig okkur gengur að bæta geðheilsu landsmanna verður bara mælt með beinni aðkomu þeirra.

Á Íslandi ríkir allt of oft ákveðið sérfræðingaræði. Þegar kemur að því að móta stefnu í mikilvægum málaflokkum eins og þessum sem fæst við grunnheilbrigðisþjónustu og grunnþarfir fólks í samfélaginu horfum við á vandamálið að ofan. Skýrslan felur í sér greiningu á því hvernig kerfið okkar er ekki nægilega gott og hún felur í sér mat sérfræðinga á því hvaða breytingar séu nauðsynlegar. Þó að það sé ágætisnálgun og nauðsynleg að vissu leyti vantar að við horfum á kerfið að neðan, frá sjónarhóli notenda, hver upplifun þeirra er sem þurfa að nýta sér þessi kerfi.

Það er allt of algengt að þegar fjallað er um áskoranir í geðheilbrigðismálum er ekki leitað til fólks með reynslu af geðrænum áskorunum nema þá kannski til skrauts. Um heim allan leggja hreyfingar þeirra sem byggja á eigin reynslu áherslu á „ekkert um okkur án okkar“ á meðan við hérna heima lítum á þetta sem eitthvert tæknilegt vandamál sem hægt er að útvista til sérfræðinga til að laga ofan frá. Þessu þarf að breyta.

Staða geðheilbrigðismála á Íslandi er ekki nægilega góð. Því miður hefur hún versnað frekar en batnað. Úrræðum hefur verið lokað vegna fjárskorts eða vegna þess að ríkið hefur hætt að veita framlög til þeirra og við vitum að margir þurfa að bíða oft vikum og mánuðum saman eftir að hljóta viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Kulnun er vaxandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku samfélagi, sem við erum rétt núna að byrja að átta okkur á. Á sama tíma hefur geðheilsu ungs fólks hrakað mikið, ekki síst ungra karlmanna. Frá árinu 2012 hefur ungum karlmönnum með geðgreiningu sem hljóta örorkubætur fjölgað um hátt í 30% og geðraskanir eru nú langalgengasta ástæða örorku á Íslandi. Hátt í 7.300 manns, 38% örorkulífeyrisþega, eru öryrkjar á grundvelli geðgreiningar.

Ég sakna þess að fjallað sé í skýrslunni um skort á sérhæfðri þjónustu við viðkvæma hópa. Sem dæmi má nefna viðvarandi skort á langtímameðferð fyrir fólk með tvíþættan og þríþættan vanda. Þessi skortur hefur m.a. haft þær afleiðingar í för með sér að heimilislausum í höfuðborginni fer fjölgandi með tilheyrandi afleiðingum fyrir einstaklingana sjálfa, aðstandendur þeirra og sveitarfélagið. Með sama hætti hafa Geðhjálp, Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis og nefnd gegn pyndingum og vanvirðandi meðferð bent ítrekað á að takmörkuð geðheilbrigðisþjónusta í íslenskum fangelsum samræmist hvorki mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmála Evrópu.

Í skýrslunni er lítil áhersla lögð á starfsemi frjálsra félagasamtaka og hlut notenda í stefnumótun og framkvæmd þjónustunnar. Samt vitum við sem höfum látið þennan málaflokk okkur varða að nýsköpun á sviði geðheilbrigðismála er oftast drifin áfram af frjálsum félagasamtökum. Úrræðin sem hafa orðið til hafa skipt gríðarlegu máli fyrir það fólk sem hefur notað þau. Eldmóðnum sem er að finna í frjálsum félagasamtökum ber að fagna og nýta í stað þess að kæfa með kafkaískri bírókratíu.

Í skýrslunni er lítil grein gerð fyrir áhrifum samfélagsgerðar og menningar á geðheilsu fólks. Samt hafa rannsóknir sýnt fram á að þættir eins og vinnumenning, aðbúnaður fjölskyldna og barna, hafa afgerandi áhrif á geðheilsu almennings. Það er nefnilega svo að við getum gert fleira til að stuðla að bættu geðheilbrigði og bættri líðan en bara það að efla úrræði og þjónustu. Ef við viljum stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu landsmanna verðum við að styðjast við bestu og nýjustu þekkingu og nýta okkur þau verkfæri sem þekkingin hefur skapað. Við þurfum að horfa til streituvalda í samfélaginu og hvernig við getum byggt upp samfélag saman sem grundvallast ekki á því að keyra fólk út annaðhvort í skóla eða vinnu og ýtir þannig undir þann geðræna vanda sem við sjáum nú í síauknum mæli hjá ungu fólki.

Við þurfum að efla forvarnir, gæta þess að enginn lifi við eða undir fátæktarmörkum, horfa til hollara mataræðis, hvetja til innri íhugunar og tryggja að fólk hafi rými og tækifæri til að öðlast innri frið og tilgang. Við þurfum að stytta vinnuvikuna, gefa fólki meiri tíma með fjölskyldunni, með börnunum sínum, því að á sama tíma gefum við börnunum meiri tíma með foreldrum sínum. Að stytta vinnuvikuna er að fjárfesta í börnum okkar.

Það sem ég er fyrst og fremst að tala um er mannúðlegra samfélag þar sem fólk er ekki bara að draga fram líftóruna heldur fær tækifæri til að dafna og blómstra. Það er áhrifaríkasta leiðin til að tryggja bestu mögulegu líkamlega og andlega heilsu fólks. Við verðum að taka saman höndum til að byggja upp mannúðlegra samfélag þar sem við setjum vellíðan og andlega og líkamlega heilsu í fyrsta sæti.

Forseti. Ég þakka ráðherra fyrir skýrsluna í dag. Ég heyri að hæstv. ráðherra talar á þessum nótum í sínu máli og er það fagnaðarefni. Það er gott að við vinnum áfram að því markmiði að bæta geðheilsu allra landsmanna og það er verkefni okkar allra og ég vona svo sannarlega að við saman náum því markmiði.