149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[14:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa góðu og gegnu skýrslu. Hún er uppfull af væntingum um bjartari og betri tíma og þessi kafli sem fjallar um geðheilbrigðismál verður svo sannarlega aldrei nógu vel krufinn svo vel verði til framtíðar.

Það sem við horfum upp á í dag og hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi áðan er að 40 einstaklingar sviptu sig lífi í fyrra. Það sem af er ári eru 40 einstaklingar dánir og er verið að rannsaka hvort og hversu margir af þeim hafi hreinlega látist vegna lyfjaeitrunar. Geðteymin okkar, spítalinn, réttar- og öryggisgeðdeildir og nú síðast Skúli Magnússon, héraðsdómari og fyrrverandi formaður Dómarafélags Íslands, tala um þá miklu aukningu sem hefur orðið á nauðungarvistun ungra manna og drengja. Vegna hvers? Jú, vegna kannabisreykinga, segir hann. Það sé hafið yfir allan vafa að ungir drengir sem byrja að reykja kannabis á aldrinum 12–15 ára eiga eftir að ganga í gegnum eitthvað slíkt í fleiri en færri tilvikum. Það hefur orðið vart við það að strax í kringum tvítugt lenda þessir ungu menn í geðrofi. Hvað verður svo um þá? Þeir eru nauðungarvistaðir. Þeir eru inni á öryggisgeðdeild. Þeir fá jafnvel hjálp þannig að þeir geti virkað úti í samfélaginu og komið út í samfélagið. Þeir fá lyf og allan aðbúnað. En hver er eftirfylgnin? Hún er lítil sem engin. Búsetuúrræði og aðbúnaður, aðstoð við að komast út í samfélagið, aðstoð við að fá vinnu, allt er það af svo skornum skammti að þessir mörgu einstaklingar verða bara að sitja áfram inni á geðdeild þótt þeir eigi að heita tilbúnir til að ganga aftur inn í samfélagið.

Það er svo margt sem við getum gert annað en að setja niður falleg orð á blað. Það er svo margt sem við getum gert ef við bregðumst við með gjörðum en ekki bara orðum.

Ég veit að hlutskipti hæstv. heilbrigðisráðherra er erfitt. Þetta er gríðarlega stórt verkefni sem hún hefur í fanginu og ég óska henni sannarlega alls hins besta og ég vænti mjög mikils af henni þegar ég vissi að hún fékk þetta erfiða hlutskipti. En það breytir ekki þeirri staðreynd að mér finnst of mikið um tal, of lítið um framkvæmdir. Ég horfi á biðlistana inn á Vog, 600 einstaklingar. Nú hefur það verið viðurkennt að fíknisjúkdómar eru í mörgum tilvikum beintengdir geðrænum vanda. Hvers vegna erum við, virðulegi forseti, með 600 manns á biðlista eftir hjálp inni á Vogi? Ég bara get ekki talað nógu oft um það í þessu æðsta púlti landsins. Getum við lokað augunum fyrir því að fleiri hafa dáið á þessu ári vegna fíknivanda en samanlagt úr öllum öðrum sjúkdómum einstaklinga á aldursbilinu 18–40 ára á Íslandi? Er mögulegt að loka augunum fyrir því? Ég segi nei.

Það gæti kostað okkur 200 millj. kr. að eyða þessum biðlistum. Á innan við ári værum við komin í jafnvægi og gætum tekið við öllum sem væru tilbúnir á þeim tímapunkti að leita sér hjálpar. Við gætum gert það strax. 200 milljónir í þessu sambandi í mínum huga eru baunir, virðulegi forseti, ekki grænar baunir heldur bara baunir í orðsins fyllstu merkingu.

Við tölum um að þetta kerfi eigi að vera frábært alls staðar á öllu landinu, það eigi ekki vera háð búsetu hvort við fáum þjónustu. Við horfum til skólakerfisins. Í kosningabaráttunni 2016, fyrstu kosningabaráttu sem ég tók þátt í, þá sem formaður Flokks fólksins, með nýstofnaðan stjórnmálaflokk, var einn samnefnari í framhaldsskólunum. Unga fólkið okkar bað um aðstoð, sálfræðiþjónustu, endurgjaldslausa sálfræðiþjónustu inn í skólann til sín. Hvar er hún núna, virðulegi forseti? Við lofuðum því öll að ef við fengjum umboð til þess og settumst hér í þessa stóla myndu börnin fá þessa þjónustu. Hvar er hún nú? Hvað skyldi verða um þau 30% ungra drengja sem útskrifast úr grunnskóla með lélegan lesskilning? Hvernig gengur þeim? Fara þeir í framhaldsnám? Og ef þeir skyldu ætla að freista gæfunnar þar, hvað verður þá um þá?

Hverjir eru það sem eiga í þessum geðvanda? Hvernig bregðumst við við strax? Ekki á morgun, ekki með fallegum orðum heldur með gjörðum strax.

Virðulegi forseti. Ég sendi hæstv. heilbrigðisráðherra baráttukveðjur og veit að hún á svo sannarlega erfitt og umfangsmikið verk fyrir höndum. En ég treysti því að með samstilltu átaki og öflugum vilja getum við gjörbreytt strax þeirri umgjörð og leyst úr þeim vanda sem allt of margt af unga fólkinu okkar býr við í dag. Geðheilbrigðismál á Íslandi þurfa ekki að vera eins skelfileg og í eins ömurlegu ástandi og þau eru nú ef við bregðumst við strax.