149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferð hennar yfir skýrslu um geðheilbrigðismál. Það má segja að geðheilbrigðismál séu stóri fíllinn í postulínsbúð stjórnvalda. Heilbrigðismál almennt hafa verið vanrækt stórkostlega hjá síðustu ríkisstjórnum þrátt fyrir þjóðarsátt um stórátak í heilbrigðismálum, en geðheilbrigðismálin enn frekar. Ég veit ekki hvers vegna geðheilbrigði hefur mátt sæta þessari vanrækslu en mig grunar að það hafi eitthvað að gera með kerfislæga fordóma gagnvart andlegu heilsuleysi. Til að ná árangri í geðheilbrigðismálum verða stjórnvöld að taka höndum saman þvert á allt kerfið. Geðheilbrigði varðar allt sem snertir daglegt líf og þannig verða miklu fleiri ráðuneyti en heilbrigðisráðuneytið eitt að koma að þessu verkefni. Þá verða sveitarfélög og ríki að vera í þéttu sambandi um hvernig þjónusta á þann hóp fólks sem glímir við geðræn veikindi.

Við höfum býsna gott tækifæri til að taka vel utan um þann hóp sem glímir við geðræn vandamál. Okkar félagslega kerfi er þannig upp byggt að við getum greint mögulegan vanda mjög snemma og ættum, ef pólitískur vilji væri fyrir hendi, að geta veitt fullnægjandi þjónustu af alúð en festu. Fyrir liggur að geðræn vandamál koma oft snemma í ljós en 75% raskana eru komin fram hjá fólki strax á þrítugsaldri. Þar sem skólakerfið okkar og heilbrigðiseftirlit með börnum á leik- og grunnskólaaldri er býsna gott ættum við að geta hnýtt viðbragðsnet til að grípa þá einstaklinga sem glíma við geðheilbrigðisvanda, en því miður hefur okkur mistekist hrapallega í því skylduverkefni okkar og allt of oft hafa áætlanir og háleit markmið legið ofan í skúffu óframkvæmd.

Þannig er t.d. með geðheilbrigðisáætlun sem samþykkt var hér á Alþingi til fjögurra ára árið 2016 og get ég þannig ekki verið sammála hæstv. heilbrigðisráðherra sem segir í skýrslu sinni að með geðheilbrigðisstefnu og áætlun hafi verið stigið mikilvægt og jákvætt skref í átt að bættri heilbrigðisþjónustu. Í áætluninni má vissulega finna fjölmargar góðar tillögur að úrbótum en svo virðist sem fátt hafi komist til framkvæmda. Orðum verða nefnilega að fylgja verk.

Sem dæmi skal fyrsta aðgerð áætlunarinnar lúta að lagasetningu um að ríki og sveitarfélög skuli gera samning um samvinnu hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu. Ekkert bólar á þessari lagasetningu sem þó á að vera löngu frágengin. Þetta er miður enda er ljóst að skortur á agaðri stefnumótun og fjármagni veldur því að báðir aðilar, sveitarfélög og ríki, halda að sér höndum hvað varðar þjónustu við einstaklinga með geðrænan vanda með þeim afleiðingum að fólk sem þarf á þjónustunni að halda er skilið eftir á berangri, hvort sem um er að ræða búsetu, heilbrigðis- eða virkniúrræði.

Annað atriði á að vera komið til framkvæmda en það snýr að geðheilsuteymum sem átti að fjölga um allt land en fyrir var eitt teymi á höfuðborgarsvæðinu. Þannig átti fólk sem glímir við geðröskun að hafa aðgang að þverfaglegu teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem komi að greiningu og meðferð um allt landið. Nú, fjórum árum síðar, hefur eitt nýtt teymi tekið til starfa á höfuðborgarsvæðinu. Eitt. Ekkert slíkt teymi er að finna á landsbyggðinni, að því ég best veit, og þarna sést að hin samþykkta geðheilbrigðisáætlun er á lokaári sínu ekki komin til framkvæmda í grundvallaratriðum. Þetta er flott plagg, frú forseti, vissulega samþykkt af Alþingi, en því fer fjarri að það sé merki um bætta þjónustu.

Ég hef einnig þó nokkrar áhyggjur af því hversu illa stjórnvöld virðast gera sér grein fyrir þeirri þjónustuþörf sem er um allt land. Vakti það athygli mína að lesa í skýrslunni að þörfin hefði ekki verið metin með formlegum hætti og að slíkt mat væri æskilegt. Í raun sakna ég þess að í skýrslunni sé ekki að finna neinar upplýsingar um þörfina. Þannig geta stjórnvöld í raun ekkert sagt til um það hvort verið sé að veita nauðsynlega þjónustu eða hversu mikið vanti upp á.

Sú frásögn í skýrslunni að geðheilbrigðisþjónusta sé veitt á heilsugæslustöðvum um allt land er ekki raunsönn, enda veit ég fyrir víst að íbúar víða um land, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða um landið, kannast ekkert við þá sérfræðiþjónustu sem nauðsynleg er. Vegna þessa skorts á yfirsýn yfir umfangið og veitta þjónustu verður þessi skýrsla hæstv. ráðherra því miður lítið annað en vangaveltur, hugmyndir út í framtíðina frekar en stöðutaka á því stóra verkefni sem liggur fyrir.

Ég get í lok ræðu minnar ekki látið hjá líða að minnast á þá einstaklinga sem eru með tvíþættan vanda, þ.e. hvort tveggja geðrænan vanda sem og fíknivanda. Þeir einstaklingar verða helst út undan í kerfinu því að þau virðast einhvern veginn hvergi henta alveg í þau fáu úrræði sem þó eru til staðar. Þau komast, að því er virðist, hvergi inn, fá ekki pláss. Þeir aðilar sem koma að þjónustu við þennan hóp hafa margir hverjir þurft að vísa fárveikum einstaklingum frá þegar þeir leita aðstoðar í neyð sinni. Breytir þá engu hvort um er að ræða börn, unglinga eða fullorðna. Höfum við þannig fengið ítrekaðar fregnir af fárveiku fólki vistuðu í fangageymslum lögreglu sem eins og allir vita er skýrt mannréttindabrot stjórnvalda gegn þessum hópi.

Frú forseti. Allt of lítið fjármagn er til skiptanna meini ríkisstjórnin eitthvað með því að þau vilji leggja sérstaka áherslu á geðheilbrigðismál. Einn fagaðili fer með geðmálin í heilbrigðisráðuneytinu þó að fólk með geðraskanir sé 38% (Forseti hringir.) þeirra sem úrskurðaðir hafa verið með örorku. Sjálfstæðum aðilum, félagasamtökum, sem komið hafa að þjónustu við fólk með geðraskanir, (Forseti hringir.) hefur fækkað ört að undanförnu, en þörfin fyrir þjónustuna eykst stöðugt. Við bara verðum að gera betur.