149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:31]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Í skýrslu hæstv. heilbrigðisráðherra sem við ræðum segir réttilega að markmiðið með skipulagðri heilbrigðisþjónustu sé að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita á hverjum tíma til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Jafnframt er það markmið að þjónustan sé veitt á viðeigandi þjónustustigi til að mæta þörfum sjúklinga. Þetta á við um geðheilbrigðisþjónustu sem og aðra heilbrigðisþjónustu.

Einkunnarorð Geðræktar eru: „Það er engin heilsa án geðheilsu“. Þetta eru orð að sönnu, en við Íslendingar stöndum eins og aðrar þjóðir frammi fyrir miklum áskorunum þegar kemur að geðheilbrigði. Samkvæmt rannsókn 28 sérfræðinga um allan heim er geðheilbrigðisvandinn alþjóðlegur og kominn að hættumörkum. Með aðgerðaleysi er verið að láta fólk þjást að óþörfu, segir í skýrslu sérfræðinganna sem birtist í hinu virta læknavísindariti The Lancet. Öll lönd finna fyrir byrði vaxandi heilsukvilla og það þrátt fyrir að þekking okkar á meðferð þeirra kvilla hafi aukist.

Það er gert ráð fyrir að tap ríkja heims vegna vinnutaps einstaklinga með geðræn vandamál verði um 16.000 milljarðar bandaríkjadollara. Það eru um 1.800.000 milljarðar íslenskra króna. Þetta eru fjárhæðir sem enginn skilur. En eitt er hinir fjárhagslegir hagsmunir sem eru í húfi og annað er það sem skiptir öllu máli, lífsgæði fólks sem berst við alvarleg veikindi, líkamleg eða andleg.

Sérfræðingar fullyrða að hægt væri að bjarga nærri 14 milljónum mannslífa ef tekist yrði á við heilbrigðisvanda af fullum krafti. Þjónusta við þá sem glíma við geðheilsuvanda er alls staðar verri en fyrir þá sem kljást við líkamlega kvilla. Kvíði og þunglyndi, auk afleiðinga ofbeldis og hörmunga eru meðal helstu geðheilbrigðismála sem við þurfum að kljást við eins og aðrar þjóðir.

Frú forseti. Á Íslandi eru liðlega 8.300 einstaklingar á örorku vegna geðraskana. Þeim hefur fjölgað um rúmlega 1.500 á síðustu fimm árum. Við erum að missa stóran hóp ungs fólks á örorku og staðreyndin er sú að flestir sem fara á örorkulífeyri verða á örorkulífeyri út ævina. Nú eru um 1.770 öryrkjar undir 30 ára með geðröskun. Þeim hefur fjölgað um nær 50% á síðustu fimm árum.

Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í ágúst á síðasta ári sagði Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs, með leyfi forseta:

„Það er þannig að þegar ungt fólk er að fara inn á örorku í þessum mæli, án þess að hafa fengið viðeigandi heilbrigðisþjónustu og nægilega langan endurhæfingarferil með tryggri framfærslu, þá erum við svolítið að gefast upp á fólki. Við verðum að hjálpa þessu fólki betur. Það er bara mjög nauðsynlegt.“

Alveg sama hvernig við horfum á málið, hvaða tölu við lítum á, fjárhagslega eða varðandi fjölda þeirra sem glíma við andleg veikindi, er augljóst að við þurfum þjóðarátak. Við þurfum að skoða málin og taka ákvörðun frá mörgum hliðum. Við þurfum að skoða þátt heilbrigðiskerfisins og af hverju við höfum ekki náð að byggja upp með betri og skynsamlegri hætti þá þjónustu sem nauðsynleg er, en við þurfum líka að skoða hvernig við skipuleggjum skólakerfið og hvernig við stöndum að endurhæfingu og byggjum upp tryggingakerfi öryrkja. Þetta verður allt að vinna saman en ekki gegn hvert öðru. Við þurfum að fara að taka skynsamlegustu ákvörðun sem við getum tekið þegar kemur að heilbrigðismálum og það er að fjárfesta í forvörnum. Það á við um geðheilbrigðismál sem og önnur heilsuvandamál.

Ég sé að í skýrslu hæstv. heilbrigðisráðherra er með réttu sagt að í lýðheilsustefnu frá árinu 2016 sé sérstök áhersla lögð á börn og ungmenni að 18 ára aldri, meginmarkmiðið sé að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030. Það eru rétt tæp 12 ár í það. Áherslan sé lögð á forvarnir og heildræna nálgun, m.a. með samstarfi við skóla og sveitarfélög.

Lýðheilsustefnan er ágæt svo langt sem hún nær, enda er hún hluti af nauðsynlegum forvörnum. Það er nefnilega þannig að fjárfesting í nútíð er ávísun á lægri kostnað í framtíð, en umfram allt ávísun á bætt lífsgæði þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli.

Frú forseti. Á næstu vikum munum við fá til umfjöllunar tillögur um breytingar á tryggingakerfi öryrkja. Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir þá þætti sem mikilvægt er að hafa í huga við þær breytingar sem við þurfum að gera og getum ekki skorast undan að gera þegar kemur að tryggingakerfi öryrkja. En ég vil benda á nauðsyn þess að hafa í huga hvernig samþætting örorkutrygginga og þátttaka í atvinnulífinu og samfélaginu öllu er órjúfanlegur hluti af geðrækt og baráttu okkar við að vinna að auknu geðrænu heilbrigði.