149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Mig langar að gera mannréttindi fólks með geðsjúkdóma og geðfötlun að umfjöllunarefni mínu í þessari mikilvægu umræðu um þessa ágætu skýrslu. Hún tæpti ekki beint á því en mig langar að setja það í þetta samhengi.

Eins og margir vita njóta einstaklingar með geðsjúkdóma, eða einstaklingar sem eru taldir hafa geðsjúkdóma af einhverjum læknum úti í bæ, ekki sömu mannréttinda og við sem erum ekki talin vera með geðsjúkdóm, vegna þess að það er nóg til að svipta einstakling frelsi sínu í þrjá sólarhringa og nauðungarvista hann á spítala að viðkomandi sé haldinn geðsjúkdómi, líkur séu á að svo sé eða ástandi hans sé þannig háttað að það megi jafna því við að vera haldinn alvarlegum geðsjúkdómi.

Þetta fyrirkomulag í lögræðislögunum er bein lagaleg mismunun gagnvart einstaklingum með geðröskun eða geðfötlun. Hún beinist einungis gegn þeim sem eiga við geðsjúkdóm að stríða eða eru taldir eiga við geðsjúkdóm að stríða og felur í sér heimild til frelsissviptingar þeirra einstaklinga. Um þessa frelsissviptingu gilda heldur ekki sömu réttarfarsreglur og við eigum að venjast þegar kemur að frelsissviptingu einstaklinga. Þeir hafa miklu veikari málsmeðferðarréttindi, það er miklu auðveldara að meina þeim sem á að nauðungarvista að koma fyrir dómstóla og bera hönd fyrir höfuð sér og segja: Það þarf ekki að svipta mig frelsi mínu. Það er miklu auðveldara að neita þeim um aðgang að réttarsal heldur en t.d. í refsiréttarmálum. Þetta er einn af mörgum þáttum sem fela í sér beina lagalega mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma.

Ég kýs að vekja máls á þessu vegna þess að ég held að það skipti líka gríðarlega miklu máli fyrir fólk með geðsjúkdóma að það upplifi ekki að það sé einhvers konar annars flokks þegnar og það eigi ekki sömu réttindi og allir aðrir til frelsis og mannhelgi. Ég nefni mannhelgi vegna þess að um leið og búið er að nauðungarvista einstakling eru svo gott sem engin skilyrði fyrir því að það megi ekki líka þvinga viðkomandi einstakling til að sæta hvers kyns læknismeðferð, m.a. sprauta þá niður. Þar er hvergi um nauðvörn að ræða eða neitt slíkt, alveg eins og þegar verið er að tala um nauðungarvistun. Hvergi kemur fram að það þurfi að vera þannig að enginn annar möguleiki sé í stöðunni, að viðkomandi sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Það er ekki að finna neina slíka varnagla í þessum lögum sem gerir þar af leiðandi lagalega stöðu þeirra, sem eru sviptir eða nauðungarvistaðir að ósekju, gríðarlega veika þegar kemur að því að fara með slík mál fyrir dómstóla. Teljum að einstaklingur hafi verið nauðungarvistaður að ósekju, þá er ekkert skilyrði fyrir nauðungarvistun í lögum annað en það að viðkomandi sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Það er náttúrlega ekki boðlegt og felur í sér mjög mikla vanvirðingu gagnvart þeim hópi fólks og er að sjálfsögðu kolólöglegt líka. Þetta stenst bara ekki samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta stenst ekki mannréttindasáttmála Evrópu og þetta stenst varla stjórnarskrána okkar heldur.

Meðan svo er held ég að svolítið erfitt sé að ávinna sér traust og virðingu fólks með geðraskanir sem verða fyrir því að vera nauðungarvistaðir, telja sig mögulega ekki hafa haft þörf á því, ef þeir hafa ekki til lagalegra úrræða að leita.

Mig langar að tala aðeins meira um þvingaða meðferð vegna þess að þar vantar í fyrsta lagi reglur. Það vantar líka fleiri skilyrði. Skilyrði vantar um að það sé í neyðarvörn. Eiginlega ætti það bara að vera bannað. Það hefur komið fram frá sérlegum sendiboða eða sendiherra Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum að beiting þvingaðrar meðferðar, sem getur falið í sér að viðkomandi verður sljór eða hann finni til eða þetta hafi langvarandi áhrif, geti falið í sér pyndingar. Við höfum engar varnir gegn þessu í lögum okkar. Það má vel vera að heilbrigðisstarfsfólk standi sig afskaplega vel í því að virða mannhelgi og sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga sinna, en það er samt svo að við þurfum að hafa lög og reglur um það ef misbrestur verður á því, að fólk hafi þá eitthvert að leita. Eins og staðan er núna þá er það ekki svo.

Það er ekki bara ég sem er að gagnrýna þetta fyrirkomulag, heldur hefur CPT-nefndin svokallaða, eða nefnd Evrópuráðsins gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu, bent á þessa lagalegu mismunun í lögum og líka þær rúmu heimildir sem við höfum til beitingar nauðungar gagnvart fólki með geðsjúkdóma og geðraskanir. Hún hefur bent á það síðan 1994. Í öllum sínum heimsóknum til Íslands hefur hún bent á þá lagalegu mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma í lögum okkar og að við höfum allt of rúmar heimildir til frelsissviptingar og allt of rúmar heimildir til þvingaðrar læknismeðferðar.

Ég held að mjög mikilvægt sé að gera breytingar þar á. Lögræðislögin heyra undir bæði dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Því hvet ég þessa ráðherra tvo að styðja þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram um heildarendurskoðun lögræðislaga sem taka mið af þeim skuldbindingum sem við höfum gagnvart samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og uppfæra lögræðislög okkar í átt til nútímans og í átt til laga sem virða sjálfsákvörðunarrétt, mannhelgi, jafnrétti og friðhelgi þeirra sem hafa geðsjúkdóma eða búa við geðfötlun. Fleira var það ekki.