149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um skýrslu heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar. Við lestur skýrslunnar varð ég fyrst mjög glaður. Ég sá hvað eftir annað talað um starfshópa, samráðshópa, þverfagleg teymi og ég hugsaði með mér: Já, nú ætla þeir loksins að tala við þann sem er með sjúkdóminn, við félagasamtök stofnuð af fólki með geðræn vandamál. En nei, það er ekki á dagskrá. Það er ekki enn þá kominn skilningur í kerfinu á: „Ekkert um okkur án okkar.“

Þann 1. september sl. var GET lokað og Hugarafl missti með því nánasta samstarfsaðila sinn. Þau eru búin að gera samning til næstu sex mánaða við iðjuþjálfa og sálfræðing. Þau eru í lausu lofti með húsnæði. Í því samhengi má benda á að 44% af skjólstæðingum þeirra eru á aldrinum 18–35 ára. Það er því miður ekki verið að gera hlutina eins og á að gera þá. Maður fær alltaf sömu tilfinninguna, og ég hef sagt þetta áður og segi víst aldrei nógu oft, þegar maður heyrir talað um starfshópa, samráðshópa og allt það, að þetta séu bara nefndir, engar efndir.

Síðan er annað og það eru vinnumál. Það er alltaf verið að tala um starfsendurhæfingu en það er ekki einu sinni til vinna fyrir þetta fólk. Það eru þegar á fjórða hundrað einstaklingar að bíða eftir hlutastörfum. Opinberir aðilar auglýsa ekki einu sinni eftir fólki í hlutastörf sem eru með örorku eða önnur vandamál.

Bæjarfélög gera það ekki heldur. Þeir segja frekar upp fólki sem er í hjólastólum. Og ekki heldur Samtök atvinnulífsins, þau eru ekki heldur þarna inni.

Það er miður að nánast allt fjármagn fer í stofnanamenningu og sjúkdómavæðingu sem stuðlar að örorku. Það er líka annað í því og það eru lyfjamálin. Það eru til mjög mismunandi lyf og það er alveg ótrúlega skrýtið hvernig þetta er t.d. með samheitalyfin, sem geta verið mjög slæm og hreinlega lamað fólk með geðræn vandamál. Það er því miður ekki stefnan, sem ætti auðvitað að vera númer eitt, tvö og þrjú, að sjá til þess að fólk þurfi ekki á lyfjum að halda. Það ætti að vera númer eitt, tvö og þrjú vegna þess að sjúkdómurinn er þannig að hann er verstur á ákveðnum tímabilum og eftir því sem þeir segja sem hafa vit á fjarar hann út eftir því sem líður á. Í dag virðast lyf gefin til að róa liðið og síðan á fólk að vera til friðs. Það á ekki að vera svoleiðis.

Það sem ég var mest hvumsa yfir í skýrslunni og fékk mig mikið til að hugsa eftir á var að meðalbiðtími barna eftir þjónustu á BUGL hefur verið nokkuð langur. Því miður hafa mygla í húsnæðinu og veikindi starfsfólks sett strik í reikninginn, en verið er að vinna að því að leysa það. Það er verið að vinna að því að leysa myglu á barna- og unglingageðdeildinni. Er starfshópur í gangi þar? Af hverju leysum við ekki svoleiðis (Forseti hringir.) mál einn, tveir og þrír? Þetta er barna- og unglingageðdeild og það eru biðlistar. Það voru líka biðlistar fyrir kosningar. (Forseti hringir.) Ef við getum ekki leyst myglu í húsi barna- og unglingageðdeildarinnar, hvernig í ósköpunum (Forseti hringir.) ætlið þið þá að leysa allt hitt?