149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:57]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna. Ég held að þetta sé svo mikilvægt mál að við þyrftum að ræða það mun oftar og reglulegar í þessum þingsal og reyna að fara yfir allt sviðið. Umræðan í dag hefur sýnt að sviðið er mjög stórt, nær víða, og ég held að hægt sé að fullyrða að það snerti alla í íslensku samfélagi á einn eða annan hátt. Geðheilbrigðismálin ná yfir svo miklu meira en aðeins þá sem eru með einhverja greiningu, með geðsjúkdóm eða geðröskun og annað slíkt. Þetta er svo miklu meira mál en það og er alltaf að verða stærri og stærri þáttur í breyttu samfélagi. Þess vegna er mjög mikilvægt að taka það föstum tökum en á sama tíma með umhyggju. Þau mál mega ekki vera tabú. Það þarf að vera hægt að ræða þau á lausnamiðaðan hátt og við þurfum að gera okkur strax grein fyrir því að ekki er til nein ein lausn. Þetta byggist á mörgum lausnum sem vinna saman, mörgum aðilum sem þurfa að vinna mjög vel saman og náið og bera virðingu fyrir því sem hinir eru að gera, af því að við erum eins misjöfn og við erum mörg. Það er munur á milli úrræða, hvað hentar okkur hverju sinni á hverju stigi í andlegum erfiðleikum, veikindum. Það er einstaklingsmiðað hvaða leiðir fólk vill fara og hvað gagnast hverjum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við tryggjum fjölbreytileika.

Við verðum að hafa greiningar og gagnreyndar aðferðir og byggja upp kerfið þannig að við getum leitað til fullmótaðs heilbrigðiskerfis sem tekur á vandanum, býður úrlausn og hefur svör. Við verðum líka að tryggja að fólk geti farið án mikilla hindrana og án greininga og sótt sér þjónustu, á auðveldan hátt með stuttum boðleiðum, þar sem það er boðið velkomið þótt það tikki ekki í öll box, bara ef einhver finnur hjá sér að hann þarf aðstoð og veit um úrræði sem geta mögulega hjálpað. Þótt slíkar lausnir uppfylli ekki allar ströngustu kröfur heilbrigðiskerfisins verðum við samt að standa vörð um þær. Það verður hins vegar líka að vera hægt að gagnrýna slíkar lausnir og þær verða að geta staðist allar aðrar aðferðir í faglegheitum, svo að það sé tekið fram. Þetta snýst aðeins um fjölbreytileika, til að við getum mætt mismunandi áskorunum fólks.

Aðgengi þarf líka að vera gott. Það má ekki vera of mikið kerfi og of mikill stimpill eða of langur biðlisti til að komast í svona þjónustu af því að þeir sem þurfa á henni að halda eru oftast í þannig ástandi að þeir hafa ekki mikla orku til að standa í baráttu við kerfið.

Þetta þurfum við að tryggja. Það eru til mjög mörg úrræði og sem betur fer eru margir sem vilja láta gott af sér leiða og leggja sig alla fram við að gera það. Þar vil ég sérstaklega nefna Hugarafl, sem hefur verið mikið í umræðunni, og GET, sem eru með eina leið. Ég er ekki að segja að það eigi að vera ríkislausnin, en ég tel að það sé leið sem hafi hjálpað það mörgum og sannað sig það oft að hún verður að vera til staðar. Við þurfum einnig að tryggja leiðir eins og fjargeðheilbrigðisþjónustu þar sem fólk getur hvar á landi sem er sótt sér þá þjónustu sem hentar í gegnum nýjustu tækni.

Við höfum verið að ljósleiðaravæða allt Ísland. Við höfum sett mikla fjármuni úr m.a. Tækniþróunarsjóði til að hanna svona kerfi til að veita geðheilbrigðisþjónustu, í sálfræðinga, lækna o.fl. Við erum búin að gera þetta allt klárt en við verðum að tryggja að þau úrræði séu til staðar þannig að fólk geti óháð búsetu sótt sér þá mikilvægu þjónustu án þess að allt samfélagið horfi á viðkomandi fara til sálfræðingsins eða geðlæknisins eða viti að geðlæknar koma á þriðjudögum og fara þá á heilsugæsluna. Fólk þarf að geta sótt þjónustuna á eigin forsendum. Það þarf að valdefla fólk, gera því kleift að sækja þjónustuna á sínum forsendum. Þannig náum við miklum árangri.

Í því sambandi vil ég segja í umræðunni: Við verðum að spyrja okkur að því hvað það kostar að gera ekki neitt. Það er held ég dýrast í þessu. Hvað kostar að gera ekki neitt?. Það er dýrasti hlutinn. Við skulum hafa það svolítið í forgrunni í málinu og leita leiða til tryggja að sem fjölbreyttust úrræði séu í boði áfram og að hægt sé að veita mikilvæga þjónustu.

Að lokum vil ég taka undir það sem hefur margoft komið fram, sem þarf að byrja við fæðingu, og það eru forvarnirnar. Við þurfum að hugsa það í gegnum allt kerfið.