149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[16:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem er að koma inn, kannski ekki alveg í fyrsta skipti. Það mun hafa verið lagt fram 2012 og í lyfjastefnunni er, eins og ráðherra nefndi, hnykkt á þessum vilja.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra örlítið út í þetta. Í gildandi lögum frá 1975, um fræðslu varðandi barneignir og aðrar þær athafnir sem eru forsenda barneigna, er getið um að það beri að fræða og gefa ráð til þessara einstaklinga og séu það m.a. hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem annist það.

En það er líka látið að því liggja að þessi ráðgjafarþjónusta hafi ekki verið jafn árangursrík og menn hafi viljað og að kannski sé það vegna þess að það séu bara þessir aðilar sem hafi þessi úrræði.

En eru einhverjar rannsóknir sem benda til þess að svo sé? Er eitthvað handfast um það? Er talið að lagabreytingin muni hafa áhrif til hins betra hvað það varðar?

Og varðandi það að aukin áhersla verði lögð á aðgengi að þjónustu um kynheilbrigði, er þá fyrirhugað að gera átak hvað varðar þessa þjónustu og kynna hana betur?