149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[16:15]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Það segir enn fremur að þessi verkefni skuli falin fagfólki sem hafi næga fagþekkingu til að veita þessa þjónustu. Ég spyr hvernig að því verði staðið. Ég legg á það áherslu að þetta eru fagstéttir sem eru traustar, hafa mjög góða menntun og sterkan faglegan bakgrunn og eru raunar límið í starfsemi á mörgum heilbrigðisstofnunum.

Er gert ráð fyrir því að það verði kannski einn faglegur starfsmaður á hverri stofnun sem hafi þessa heimild eða verður þetta opið? Verður þetta sérstakt viðbótarnám eða verður bara gerð úttekt á viðkomandi starfsmanni? Og kannski líka: Mun þetta hafa áhrif á launakjör starfsmanna?

Síðan að lokum er í ákvæði í 2. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að ráðherra setji reglugerð um lyf eða lyfjaflokka sem ávísanaleyfi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra nái til. Sér ráðherra fyrir sér að fleiri lyf en þessir tilteknu flokkar geti fallið undir það sem þessar stéttir fá að skrifa upp á? Sér ráðherra það sem fyrsta skref?

Og að lokum: Þarfnast þessi breyting lagabreytingar? Þarf að gera breytingar á lögunum ef þetta verður að veruleika?