149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[16:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka til máls um þetta frumvarp, mér rennur eiginlega blóðið til skyldunnar. Hér er verið að fjalla um breytingar á tvennum lögum, annars vegar lyfjalögum og hins vegar lögum um landlækni og lýðheilsu, sem eru til þess gerðar að auka möguleika hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að sinna sínu mikilvæga starfi.

Eins og hæstv. ráðherra fór vel yfir í sinni ræðu og kemur vel fram í greinargerðinni er svolítill aðdragandi að þessu. Það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem það hefur komið til umræðu að leyfa ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum að skrifa upp á getnaðarvarnarpillur.

Það er sérstaklega fjallað um það í greinargerðinni að mikil þróun hafi orðið á sviði mannréttinda og sjálfsforræði hvers einstaklings yfir eigin líkama hafi verið áréttað, þar með talinn réttur einstaklings til að taka ákvörðun um barneignir. Ég held að þetta sé mjög mikilvægur punktur og vil hvetja ráðherra áfram í sinni framgöngu hvað svona mál varðar því að ég hygg að við megum eiga von á enn fleiri frumvörpum frá hæstv. ráðherra sem lúta einmitt að mikilvægi þess að konur ráði yfir sínum eigin líkama.

Ég tel að þetta frumvarp sé mikilvægt að svo mörgu leyti, ekki síst vegna þess, eins og komið er inn á í greinargerðinni, að verið er að nýta betur þekkingu allra starfsstétta innan heilbrigðisþjónustunnar. Við höfum séð teymisvinnu í auknum mæli í heilbrigðisþjónustunni og víða annars staðar, og við sjáum hvað hún skilar miklum árangri. Við vorum áðan að ræða um geðheilbrigðismálin og þar skiptir teymisvinna mjög miklu máli. Það eru margar stéttir innan heilbrigðisgeirans sem geta náð svo miklu meiru fram þegar þær vinna saman.

Ég fagna þessu mjög og held að það sé löngu tímabært að við opnum á þetta. Eins og kemur fram í greinargerðinni þekkist þetta líka á Norðurlöndunum og við þekkjum þetta vel frá Bandaríkjunum þar sem hjúkrunarfræðingar geta bætt aukalega við sig námi til að fá rétt til að skrifa út lyfseðla fyrir ákveðnum lyfjum þá. Það er aðferðafræði sem mér hugnast ágætlega en það er kannski svolítið stórt skref. Þetta er alla vega eitt skref sem ég fagna mjög.

Að lokum langar mig að benda á hvort það sé ástæða til að skoða enn fleiri hluti í þessum efnum. Ég hef nefnt áður hér í ræðum vottorð, sem almennt eru kölluð læknisvottorð. Eðli málsins samkvæmt skrifar læknir upp á læknisvottorð, en ef ég skil þetta rétt er í 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn talað um vottorð, álitsgerðir og faglegar yfirlýsingar, og þá er bara talað um heilbrigðisstarfsmenn almennt og fagstéttir ekki nefndar sérstaklega í þeirri grein.

Aftur á móti þegar kemur að reglugerðinni sem ráðherra er heimilt að setja í framhaldi af lögunum er talað sérstaklega um útgáfu læknisvottorða og orðið læknisvottorð notað hvarvetna þar. Mig langaði að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að skoða það og jafnvel hv. velferðarnefnd sem tekur málið til skoðunar, að þegar um er að ræða vottorð sem skrifuð eru út af læknum í dag til framlengingar á fæðingarorlofi — það er tilgreint mjög sérstaklega í hvaða tilfellum það getur verið og hefur þá forvarnagildi þannig að konur fari ekki of snemma af stað í fæðingu eða vegna sjúkdóma móður eða barns — hvað sé því til fyrirstöðu að slík vottorð séu skrifuð út af ljósmæðrum og þurfi þá ekki læknis við. Mig langaði að varpa því fram í umræðuna.

Að öðru leyti er ég eins og fram hefur komið býsna jákvæð fyrir þessu frumvarpi.

Mig langar líka að þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem kom fram í andsvari áðan að þegar verið er að tala um kynheilbrigðisþjónustu og kynfræðsluna þurfum við kannski ekki að útvíkka það hugtak en við verðum að taka tillit til mjög svo breyttra tíma. Ég held að þetta tengist svo mörgu því sem við höfum verið að ræða um í dag. Það er mikilvægt í því sem við fjöllum um nákvæmlega hér en líka í öðru og víðara samhengi.