149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[16:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir góðar undirtektir við þessu máli. Mig langar aðeins að víkja örfáum orðum að máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur þó að ég ætli ekki í andsvör við hana, í fyrsta lagi að þakka henni fyrir að halda því til haga, sem er mjög mikilvægt við þetta mál, að það stendur ekki stakt. Þetta mál er partur af ákveðinni samfélagsbreytingu, hugarfarsbreytingu. Það er partur af kvenfrelsisbylgju og við eigum að horfa á það sem slíkt. Það snýst auðvitað að stórum hluta um það að bæta þjónustuna og nýta betur þá þekkingu sem er sannarlega fyrir hendi í heilbrigðisþjónustunni. En það er á þessu líka ákveðinn kynjavinkill sem er mikilvægt að halda til haga.

Ég vil einnig þakka hv. þingmanni fyrir að hvetja okkur öll til dáða að því er varðar spurningarnar um kynheilbrigði kvenna og þá meginreglu að konan ráði yfir sínum eigin líkama, enda mun sú sem hér stendur síðar á þessu þingi að líkindum mæla fyrir nýju þingmáli sem varðar þungunarrof. Við erum að horfa á breytta tíma.

Ég tek undir og mér finnst það góð hugmynd að hv. velferðarnefnd skoði þetta með vottorðin, þó að það sé kannski spurning hvort það eigi heima akkúrat í þessu tiltekna máli. En ég held að rétt sé að nefndin noti ferðina, ef svo má að orði komast, til að fjalla aðeins um það hvort ekki sé rétt að skoða fleiri möguleika á því að nýta fagþekkingu betur og stilla strengi enn betur saman í áttina að teymisvinnu en við erum að gera núna. Það er í raun og veru sú þróun sem við erum að sjá í þessum efnum alls staðar í heilbrigðisþjónustunni.

Ég vonast til að eiga gott samstarf við hv. velferðarnefnd um úrvinnslu málsins.