149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[17:01]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að hafa örfá orð um þetta frumvarp og tek fram í upphafi míns máls að ég fagna því og vil hrósa flutningsmönnum þessa frumvarps. Mér sýnist við fyrsta lestur margt jákvætt við það.

Það er eitt atriði sem mig langar að draga sérstaklega fram og það er 7. gr., sem lýtur að svokölluðum uppljóstrurum eða afhjúpurum eða „whistle blowers“ eða hvað við köllum þá. Hér mælast flutningsmenn til þess að sett verði einfaldlega ný grein sem fjallar um vernd þeirra sem láta umboðsmanni, takið eftir umboðsmanni Alþingis, í té upplýsingar eða gögn um misfellur eða brot í starfsemi stjórnvalda eða einkaaðila sem falla undir starfssvið umboðsmanns.

Þetta er mjög jákvætt. Þetta er auðvitað um samspil uppljóstrara við umboðsmann. Mig langar að nýta þetta tækifæri, við höfum ekki oft tækifæri til að tala um uppljóstrara almennt séð eða heimildarmenn, og víkka út aðeins þessa umræðu.

Í greinargerð frumvarpsins er ágætisumfjöllun um áhuga þingsins fyrr á tíð á vernd uppljóstrara og upplýsinga- og tjáningarfrelsis. Meðal annars er vísað í tvö frumvörp sem ég lagði fram á Alþingi fyrir 13 og 14 árum, sem lutu einmitt að því að efla vernd uppljóstrara og heimildarmanna, ekki síst gagnvart fjölmiðlum. Það er kannski sá fókus sem ég ætla að fjalla um því að þótt við séum hér að tala um vernd uppljóstrara gagnvart umboðsmanni Alþingis held ég að við þurfum að taka þessa umræðu.

Það hefur margt gerst á þeim 13 árum síðan ég lagði fram frumvarp sem laut að því að bæta vernd uppljóstrara eða fjallaði a.m.k. um þá. Á þeim tíma var nánast ekkert fjallað um heimildarmenn eða uppljóstrara í íslenskri löggjöf. Í frumvarpinu kemur fram að fjallað er með einum og öðrum hætti og misdjúpum hætti um heimildarmenn og uppljóstrara í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það er einnig fjallað örlítið um þá í samkeppnislögum og að sjálfsögðu var fjallað um þá í lögum um embætti sérstaks saksóknara.

Það síðastnefnda er reyndar umhugsunarvert því að nú hefur það embætti runnið inn í embætti héraðssaksóknara. Það er umhugsunarvert af hverju héraðssaksóknari hefur ekki sömu lagaúrræði, ef svo mætti að orði kveða, þegar kemur að uppljóstrurum, eins og sérstakur saksóknari hafði, en það er efni í aðra umræðu.

Þegar við settum lög um rannsókn á falli bankanna var sérstaklega fjallað um uppljóstrara og heimildarmenn í þeim og líka þegar lög voru loks sett um rannsóknarnefndir, svo eitthvað sé nefnt. Hér ætla ég bara í örfáum orðum að fjalla um þörfina á því að auka vernd heimildarmanna gagnvart fjölmiðlum.

Markmið reglu um heimildavernd, þ.e. reglu um að tryggja nafnleynd höfunda og heimildarmanna fjölmiðla, er einmitt að tryggja möguleika fjölmiðla til upplýsinga- og fréttaöflunar um hvert það efni sem varðar hagsmuni almennings. Ég þarf svo sem ekkert að segja það hér en frjálsir og óháðir fjölmiðlar mynda eina af meginstoðum hvers lýðræðisríkis og regla um heimildavernd er eitt veigamesta skilyrði fyrir fullnægjandi starfrækslu þeirra.

Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að láta í ljós hugsanir sínar. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem varða brot á tjáningarfrelsi hefur verið staðfest að hlutverk fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi felst ekki eingöngu í því að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald með gagnrýninni umræðu, heldur ekki síður í því að tryggja almenningi upplýsingar um hvers konar mál er varða almannahagsmuni. Í mjög frægum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, í máli Goodwins gegn Bretlandi frá 1996, kemur fram að sé ekki fyrir hendi vernd heimildarmanna blaðamanna kunni það að aftra heimildarmönnum frá því að aðstoða fjölmiðla við að veita almenningi upplýsingar um málefni er varða almannahag.

Hinn hæfi lögfræðingur Páll Þórhallsson skrifaði á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Ríkinu ber skylda til að virða trúnaðarsamband milli blaðamanna og heimildarmanna. Að krefjast þess að trúnaður sé rofinn jafngildir því að eyðileggja þetta trúnaðarsamband.“

Til að fjölmiðlar geti rækt hið mikilvæga hlutverk sitt er nauðsynlegt að tryggja þeim nægilega vernd og starfsfrið til að þeir geti stundað frjálsa blaðamennsku og notið trausts almennings. Annars er hætta á að þeir upplýsi einungis um það sem stjórnvöld vilja að þeir upplýsi, en reglur um heimildavernd eru meðal grundvallarskilyrða þess að fjölmiðlar geti lagt sitt af mörkum til lýðræðisþjóðfélags. Evrópuráðið hefur sömuleiðis sent frá sér tilmæli er varða heimildavernd og þar kemur m.a. fram að ekki eigi að skylda blaðamenn til að greina frá heimildum sínum nema sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti að ekki séu fyrir hendi aðrar leiðir til að ná sama markmiði og hagsmunir af því að upplýsa um heimildina séu augljóslega ríkari en almannahagsmunirnir af því að trúnaður verði haldinn.

Ef fullnægjandi heimildavernd er ekki tryggð getur það orðið til þess að upplýsingar sem erindi eiga til almennings, svo sem um spillingu innan stjórnkerfis, verði ekki látnar í té vegna ótta heimildarmanna um að þeir geti átt yfir höfði sér hefndaraðgerðir atvinnurekenda, stjórnvalda eða annarra sem hagsmuni hafa af því að upplýsingunum sé haldið leyndum. Þá getur heimildarmaðurinn verið öðrum háður á einhvern hátt eða hann vill ekki blanda sér opinberlega í deilur en telur sér engu að síður siðferðilega skylt að koma á framfæri upplýsingum sem varða almannahagsmuni.

Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sunday Times frá árinu 1979 var tekið fram að tjáningarfrelsi sé ekki einungis frelsi til að veita upplýsingar sem eru óumdeildar heldur nái það einnig til upplýsinga sem eru móðgandi eða truflandi fyrir ríkisvaldið eða hvaða hluta samfélagsins sem er.

Ég er kannski að kalla eftir því undir þessum lið að við tökum umræðu um hvernig við getum eflt heimildavernd heimildarmanna fjölmiðlafólks. Ég veit að það er einhver vinna í gangi á vegum forsætisráðuneytisins hvað þetta varðar, en þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli.

Í 73. gr. stjórnarskrárinnar, eins og ég gat um áðan, er kveðið á um að menn eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Þannig er ákveðið samhengi milli ábyrgðarreglu fjölmiðla samkvæmt lögum og verndar höfundar og heimildarmanns, en ritstjórar bera síðan svokallaða hlutlæga ábyrgð á því sem er birt í fjölmiðlum. Síðan gilda að sjálfsögðu margs konar siðareglur innan fjölmiðlastéttarinnar sem taka til verndar heimildarmanna.

Það er fróðlegt að rifja upp gamlan héraðsdóm í þessum sal í máli sem höfðað var gegn Morgunblaðinu vegna greinaskrifa um endalok Sambands íslenskra samvinnufélaga og viðskipti þess við Landsbanka þess tíma. Niðurstaða héraðsdóms var á þann veg að blaðamanni blaðsins var talið skylt að bera vitni í málinu, en í dómi Hæstaréttar frá 1996 var hins vegar blaðamanninum talið óskylt að svara því á hvaða heimildum hann hefði byggt skrif sín eða hverjir heimildarmenn hans hefðu verið.

Í þessum ágæta og fordæmisgefandi dómi, þótt gamall sé, var niðurstaða Hæstaréttar ekki byggð á skilyrðislausum rétti blaðamannsins til að vernda heimildarmenn sína heldur á mati dómstólsins á þeim hagsmunum sem stefnandinn hafði af því að fá umræddar upplýsingar. Þetta er áhugavert og þetta sýnir að þó að árin líði þurfum við ekkert síður að huga að þessum málum og tryggja vernd heimildarmanna fjölmiðla eins og við erum að gera hér þegar kemur að því veita upplýsingar til umboðsmanns Alþingis, sem er, eins og ég gat um í upphafi míns máls, afskaplega jákvætt.

Frú forseti. Réttur almennings til upplýsinga, tjáningarfrelsis og gagnrýni á valdhafa, stofnanir og mál sem varða almannahagsmuni er mjög ríkur og gegna fjölmiðlar þar lykilhlutverki. Minnast má þess að á sínum tíma kom til uppljóstrunar um spillingu og misferli hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem leiddi til afsagnar allrar framkvæmdastjórnarinnar.

Það þarf að huga að mörgu þegar kemur að vernd heimildarmanna. Það þarf að huga að þagnarskylduákvæði opinberra starfsmanna. Sömuleiðis geta starfsmenn einkafyrirtækja verið samningsbundnir af þagnarskyldu og margir hverjir eru það. Með því að brjóta þá þagnarskyldu getur viðkomandi heimildarmaður skapað sér bótaábyrgð og þess vegna held ég að það þurfi að vera mjög skýrt í lögum hvernig við tökum á slíkum málum. Þá er einfaldlega nauðsynlegt að mínu mati að þeim sem aðstoða t.d. fjölmiðla við að upplýsa mál sem varða almannahagsmuni og jafnvel spillingu valdhafa verði tryggður bótaréttur verði þeir fyrir tjóni af þeim sökum, svo sem uppsögn eða missi réttinda.

Þetta er það sem ég vildi segja á þessu stigi málsins. Fyrst við erum að tala hér um vernd heimildarmanna og rétt uppljóstrara gagnvart umboðsmanni Alþingis held ég að við þurfum á einhverjum tímapunkti í þessum sal að taka til umræðu hvernig við getum bætt vernd heimildarmanna gagnvart fjölmiðlum.