149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[17:11]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Frumvarp þetta er afar gleðilegt. Hér er verið að koma á eftirliti umboðsmanns með stöðum þar sem dvelja einstaklingar sem hafa verið sviptir frelsi sínu. Það má segja að þetta fólk sé mjög háð þeim sem gæta þess meðan á frelsissviptingunni stendur. Ég held að það sé mjög vel við hæfi, eins og hér hefur komið fram og ég tek undir, að þetta eftirlit sé í höndum umboðsmanns, að honum sé gert kleift að sinna því og rækja af festu og þeim myndugleika sem til þarf.

Þó að ég ætli mér ekki að fara í mikil ræðuhöld vil ég engu að síður segja að mér þykir brýnt ákvæðið um uppljóstrarana og þá sem segja frá því sem miður kann að fara í því tilviki sem hér er verið að tala um, að þeir hafi sérstaka vernd. Reyndar er ákvæðið almenns eðlis sem ég held að sé ákaflega mikilvægt. Þó að það sé sett inn í lögin að þessu gefna tilefni hefur það almenna skírskotun fyrir alla þá sem koma málum á framfæri við umboðsmann og er ákaflega brýnt.

Í greinargerðinni er farið allítarlega yfir margvísleg svið réttarins þar sem staða uppljóstrara getur skipt máli og ég lít á þetta sem mjög mikilvægt skref í því að geta komið slíkri vernd á víðar. Ég fagna þessu alveg sérstaklega og tel mjög mikilvægt að þetta hafi komist inn.

Vegna þeirra orða sem hér hafa fallið um dómstólasýsluna, hugsanlegt hlutverk umboðsmanns þar og þann tíma sem hefur tekið að koma málefnum dómstólasýslunnar einhvern veginn inn í það kerfi sem ég held að við flest viljum viðhafa, þ.e. að dómstólasýslan fari eins og aðrir að eðlilegum stjórnsýslureglum og að eftirliti sé sinnt þar, tel ég að við þurfum að vinda bráðan bug að því að koma því í þokkalegan farveg. Ég leyfi mér að tala máli hv. flutningsmanns um að við munum reyna að sjá til þess að þetta mál eitt og sér tefjist ekki af þeim sökum en þar með er ég ekki að segja að við eigum ekki að sinna hinu fljótt og vel. Hugsanlega væri hægt, eins og hér hefur verið nefnt, að gera það með sjálfstæðu máli. Ég held að talsvert sammæli sé orðið um það innan þings að nauðsynlegt sé orðið að gera það.

En ég kom fyrst og fremst upp til að fagna þessu frumvarpi og þeim mikilvægu réttarbótum sem það felur í sér fyrir þá sem þurfa að sæta frelsissviptingu af einhverjum ástæðum.