149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:16]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Við skildum við þetta mál að lokinni framsögu og andsvörum hv. flutningsmanns, Björns Levís Gunnarssonar. Það er alltaf svolítið erfitt að taka upp þráðinn þegar nokkuð er um liðið frá því að maður ákvað að kveðja sér hljóðs en ég vil byrja á því að segja að málið er allrar athygli vert. Ásetningur þess eða tilgangur er sá að við reynum að stuðla að því að stytta almennt vinnutíma, sem ég held að við getum verið sammála um að sé í lengra lagi almennt talað á Íslandi í samanburði við helstu samanburðarlönd, og í því samhengi að skoða hvort stytting vinnutímans, eins og mörg rök hníga til, gæti hjálpað til við að auka framleiðni í íslensku atvinnulífi og svo sem hvar sem er þar sem launamenn leggja fram vinnu sína.

Ég hef hins vegar efasemdir um aðferðafræði frumvarpsins, að löggjafinn fari með beinum hætti inn í málið, eins og lagt er til. Það er af þeim ástæðum sem mér finnst frumvarpið í sjálfu sér nokkuð óljóst í þeim efnum hvað gerist nái það fram að ganga, talað er um að vinnutími skuli styttur en geti þó áfram verið jafn langur eftir sem áður og þetta muni ekkert kosta en muni samt kosta. Ég verð að viðurkenna að ég er örlítið ruglaður. Hv. framsögumaður reyndi að útskýra þetta og ég held að það hafi fyrst og fremst verið þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs á sínum tíma.

En að því frátöldu hafa komið, því að málið er ekki flutt í fyrsta sinn, fjölmargar umsagnir um málið og þær hafa verið af ýmsu tagi. Í mörgum þeirra er tekið undir tilgang frumvarpsins en í öðrum er, ég segi ekki lagst gegn því en lagst er mjög eindregið gegn því að Alþingi grípi með slíkum hætti inn í málið. Ber þar auðvitað fyrst að nefna umsagnir frá samtökum atvinnurekenda, þ.e. Samtökum atvinnulífsins og Félagi atvinnurekenda, og svo á hinn bóginn frá stærstu launþegasamtökum landsins, Alþýðusambandi Íslands, sem leggjast gegn því að Alþingi komi að málinu á þann hátt og vísa þar í bókun með kjarasamningi. Sú umsögn er síðan í mars á þessu ári þegar málið var síðast flutt og er bent á að að störfum sé sameiginlegur hópur vinnuveitenda og launþega sem sé að vinna að málinu.

Ég efast ekki um góðan ásetning og góða meiningu í frumvarpinu en ég hef miklar efasemdir um að þetta sé rétta leiðin til að leysa það mál. Ég held að það að gera breytingar á vinnutíma sé svo umfangsmikið mál að það verði að gerast í þokkalegri sátt milli aðila á vinnumarkaði. Þeir hafa einsett sér að reyna að ná þeirri sátt og ég tel a.m.k. rétt að sjá hvort það verði fullreynt.

Síðan eru aðilar vinnumarkaðarins einmitt að leggja af stað í kjarasamninga þessa dagana og ég held að ekki væri heppilegt að Alþingi breytti leikreglunum meðan á því stendur í það minnsta.