149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í núverandi lögum um 40 stunda vinnuviku stendur í 7. gr. að víkja megi frá lögum þessum með samningum sem séu staðfestir af hlutaðeigandi heildarsamtökum, sem eru m.a. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Lögin sem þau eru að kvarta undan eiga ekki við samninga þeirra hvort sem er. Ég skil eiginlega ekki af hverju þau ættu að vera að kvarta yfirleitt þegar allt kemur til alls því að lögin eiga við um alla hina sem gefa umsagnir. Auðvitað er óheppilegt fyrir heildarsamtökin að þeir sem standa utan þeirra séu á undan þeim að einhverju leyti en samkvæmt umsögnum þeirra misskilja þau eitt í frumvarpinu sem ég var að reyna að útskýra í framsögu minni. Þegar lögunum var breytt upprunalega, þegar vinnutími var styttur úr 44 í 40 vinnustundir, var dagvinnulaununum ekki breytt. Þau héldust óbreytt miðað við 40 stunda vinnuviku, þ.e. sömu laun fyrir styttri vinnutíma. Það er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu. Hérna er í rauninni gert ráð fyrir að fólk fái 35 dagvinnustundir greiddar samkvæmt sama taxta og það fékk fyrir 40 vinnustundir. Eins og hefur komið fram í umræðunni verður raunbreytingin af því hjá m.a. Samtökum atvinnulífsins ekki endilega stytting vinnutíma einn, tveir og þrír heldur verður einn dagvinnutími að einum yfirvinnutíma og á þann hátt hækka menn í launum ef þeir halda áfram að vinna 40 vinnustundir á viku um það sem munar einni dagvinnustund miðað við eina yfirvinnustund, sem er ekkert mjög mikið.

Hvati er þá orðinn til til að stytta vinnutímann um það sem því nemur til þess að halda sömu launum, sem munar um korteri eða eitthvað því um líkt. Þetta eru skrefin sem voru tekin í breytingunni þegar vinnustundunum var fækkað úr 44 í 40. Það tók 40 ár þangað til við komumst loksins í 40 stunda vinnuviku.