149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir skýringarnar. Honum tókst samt ekki alveg að sannfæra mig í andsvarinu og átti hann kannski ekki von á því og ég enn þá síður.

Þróun á vinnulöggjöfinni hefur mjög oft verið þannig, og það hygg ég að eigi við um lögin um vinnutímann, að atburðarásin er sú að aðilar á vinnumarkaði koma sér saman um hlutina og síðan kemur löggjafinn eiginlega í kjölfarið og lögfestir það sem menn hafa orðið ásáttir um til að tryggja lágmarkskjör í landinu. Það er kerfið sem við byggjum á.

Ég endurtek að ég sé ekki hina brýnu þörf til að grípa inn í það gangvirki, a.m.k. ekki að svo stöddu, meðan þeir aðilar sem eru langstærstir á vinnumarkaðnum og hafa um langflesta vinnustaði að segja og langflesta launþega segjast enn vera að vinna að því bæði að stytta vinnutíma og breyta þessu fyrirkomulagi með það fyrir augum að auka frítíma fyrir fjölskyldur en um leið auka framleiðnina. Ég held að það hljóti að vera aðalkeppikeflið, að ávöxturinn af því verði aukin framleiðni.