40 stunda vinnuvika.
Virðulegur forseti. Þetta er dálítil umræða um hænuna og eggið og það hvort kom á undan, styttri vinnutími eða aukin framleiðni; hvort kom á undan, samningar á vinnumarkaðnum eða réttindabarátta sem við viðurkennum á þingi.
Síðan þetta frumvarp var lagt fram fyrst hefur krafan um styttingu vinnuvikunnar vissulega orðið háværari, alveg tvímælalaust. Þetta er að hluta til innlegg í að gera þá kröfu aðgengilegri fyrir mörg samtök því að eftir því sem þau hafa sagt okkur þegar þau hafa t.d. komið á nefndarfundi til að ræða þetta mál eða önnur er að stytting vinnuvikunnar hafi verið mjög fljót út af borðinu í öllum kjarasamningum. Hún hefur verið algjörlega út úr kortinu varðandi t.d. Samtök atvinnulífsins og Samtök atvinnurekenda. Það er alla vega það sem okkur hefur verið sagt, hversu nákvæmt sem það er, a.m.k. hefur stytting vinnuvikunnar ekki komist alla leið í kjarasamninga enn þá.
Þetta er viss þrýstingur og stuðningur héðan við þá réttindabreytingu og þróun um styttingu vinnutíma, um meira jafnvægi milli vinnu og frítíma eins og OECD mælir það, sem Ísland stendur sig rosalega illa í. Þess vegna er þeim mun líklegra að þeim takist að fá það í gegn í kjarasamningum núna og þá værum við dálítið samferða þeim og væntanlega búin að stimpla þetta inn í lög á sama tíma. Væri ekki voðalega gott að vera samhliða í því, ef maður pælir í því á þann hátt?
Að sjálfsögðu ættum við að vera tilbúin eftir þetta langan tíma og svona mikla framleiðniaukningu á undanförnum fjórum áratugum að fara að stíga þau skref. Ég lít alla vega á þetta eins og vandamálið með hænuna og eggið að því leyti til að í þessu tilviki gæti löggjafinn alveg verið á undan, (Forseti hringir.) a.m.k. með þessu fyrirkomulagi þar sem við handstýrum ekki líka launahækkuninni.