149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði vel á orð þingmannsins og vil benda honum á að núna gæti einmitt verið rétti tíminn til að gera þetta. Ég ætla að segja hvers vegna ég tel svo vera. Málið fer til nefndar hv. þingmanns og hann er náttúrlega með opinn huga gagnvart því. Flokkur hv. þingmanns, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, er fylgjandi því að stytta vinnuvikuna niður í 30 tíma, ef ég heyrði rétt í fjölmiðlum á dögunum. Eins og þingmaðurinn segir er krafa um að vinnuvikan sé stytt, vinnustundunum fækkað, en að launin haldist á sama stað. Það er akkúrat svigrúmið sem væri gott fyrir þá kjarasamninga sem við stöndum frammi fyrir að gera. Við þurfum að hlusta nákvæmlega á hvað verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins segja eftir samtal þeirra á milli. Þetta er eitt af því sem komið getur upp. Við vitum það.

Við funduðum með forsvarsmönnum VR og Eflingar. Við spurðum: Er þetta rétti tíminn? Þar kom fram að þau voru ekki alveg viss um það, en spurningin var hvort við ættum að leggja frumvarpið fram samt sem áður. Niðurstaðan var sú að við myndum leggja það fram og að þau væru að rannsaka sín megin hvort nú væri rétti tíminn. Efling er t.d. núna að vinna skýrslu um styttingu vinnuvikunnar og hvað það myndi þýða o.s.frv. Í krafti þeirra upplýsinga gætum við þá breytt málinu þegar það er komið inn í nefndina, í þá veru sem hentar á vinnumarkaði. Kannski sættir fólk á vinnumarkaði sig við örlítið minni launahækkun en aðeins meiri frítíma þannig að launin hækki eitthvað og vinnutíminn styttist örlítið. Þannig að launin hækka minna en ella en fólk fær meiri tíma. Þá verður hækkun í heild í vasann en líka einhverjar aukastundir sem fólk þarf síður að vinna.

Þetta gæti þýtt minni þenslu út af kjarasamningunum þannig að núna er kannski einmitt rétti tíminn til að gera þetta. Ég vona að þingmaðurinn hlusti á það sem kemur út úr þeim rannsóknum sem verið er að gera núna hjá verkalýðsfélögunum og taki tillit til þess. Ég trúi ekki öðru.