149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að sá sem hér stendur er í hv. velferðarnefnd og mun væntanlega fá þetta mál til umfjöllunar. Ég lofa þingmanninum því að ég mun skoða málið með opnum huga.

Það breytir ekki því að mér finnst það ekki vera hlutverk löggjafans akkúrat núna að taka ákvarðanir eða stíga skref sem beina kjarasamningum og kjarasamningaviðræðum sem nú eru í gangi á milli tveggja aðila, þ.e. annars vegar launþegahreyfingarinnar og hins vegar aðila vinnumarkaðarins, í einhvern tiltekinn farveg. Það er nokkuð sem þessir aðilar, sem eru sjálfstæðir samningsaðilar, eiga sjálfir ákveða. Ef þeir leita síðan til löggjafans á einhverjum tímapunkti í þeim viðræðum og segja: Við erum komin hingað — segjum t.d. að út úr þeim viðræðum komi að þeir nái ekki að loka samningaviðræðum nema löggjafinn eða stjórnvöld geri a, b eða c — kann að vera rétt fyrir ríkisvaldið, eða eftir atvikum löggjafarvaldið, að stíga inn í. En leyfum þeim að komast þangað fyrst.