149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:41]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var ekki eiginleg spurning í andsvari hv. þingmanns heldur meira útskýringar og vangaveltur sem ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er þetta með hvernig a.m.k. launþegahreyfingin nálgast málið núna. Launþegahreyfingin nálgast það með öðrum hætti en flutningsmenn frumvarpsins. Ef hv. þingmenn vilja upplifa sig í þeirri stöðu að liðka til fyrir annan hvorn aðilann, sem ég er ekki einu sinni viss um að eigi að vera okkar hlutverk, a.m.k. ekki á þessu stigi málsins, held ég að ekki sé mikil hjálp í því að leggja fram frumvarp sem gengur ekki þangað sem verkalýðshreyfingin biður um.

Auðvitað er okkur öllum kunnugt um að það megi semja betur á markaði en segir í lögum. Augljóslega má það, menn mega alveg gera betri samninga. Í dag má alveg semja um 36 stunda vinnuviku eða 32 stunda vinnuviku vilji menn það. Menn hafa hins vegar ekki komist þangað og ég held að þessi sjálfstæði samningsréttur sé afar mikilvægur og þess vegna eigum við að lofa aðilum á markaði að ná samningum. Ég vil meina að að flestu leyti sé hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að ná áfangasigrum í kjarabaráttu.