149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vinnum hérna með réttindi fólks í gegnum lagasetningar og annað því um líkt. Þessu frumvarpi er einmitt ekki ætlað að taka sér stöðu, t.d. með verkalýðshreyfingunni, vinnuveitendum eða neitt svoleiðis, heldur er í hlutlausum gír fókusað og einblínt á réttindin, svo sem hvað er dagvinnutími. Miðað við þau réttindi sem við höfum um 40 dagvinnutíma erum við núna á Alþingi, á löggjafarsamkomunni, að segja að réttindi fólks miðist við 35 dagvinnutíma. Það er síðan fullkomlega réttur fólks að semja um hvað það þýðir í kjarasamningum sem og hvað það þýðir að vera með vinnutíma umfram dagvinnutímana.

Við erum að reyna í þessu frumvarpi að sigla réttindabaráttusjó og ég er ekki endilega sammála því að það sé eingöngu hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að taka og vinna þá slagi. Það er líka hlutverk okkar sem kjörinna fulltrúa að sinna réttindum borgaranna. Ég tel málið ekki flóknara en svo.

Þess vegna er ekki tekin ákvörðun um að halda sömu launum fyrir styttri vinnuviku eða í einhverja aðra átt fyrir Félag atvinnurekenda eða hvernig það er.

Já, það er ekki spurning í þessu frekar en áðan, heldur er þetta til að halda samræðunni áfram. Við erum að reyna að útskýra málið betur.