149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:45]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum útskýringarnar. Ég kom kannski ekki nægilega vel inn á það áðan og menn hafa ekki skilið það þannig og þess vegna ítreka ég að ég er persónulega mjög fylgjandi því að vinnuvikan verði stytt, að það eigi að vera markmið okkar sem samfélags að stytta vinnuvikuna. Ég er hins vegar mjög upptekinn af því akkúrat núna að við sem samkunda eigum að stíga varlega til jarðar í að taka ákvarðanir sem geta gert öðrum hvorum samningsaðilanum erfiðara fyrir þegar kemur að kjarasamningunum.

Segjum að þingið ákveði að drífa í að afgreiða þessa tillögu og samþykkja hana. Þá óttast ég að við værum búin að gera til að mynda verkalýðshreyfingunni töluverðan óleik vegna þess að kröfur hennar eru ekki um að stytta vinnuvikuna um fimm stundir og fá laun fyrir 35 stundir í staðinn fyrir 40. Kröfur hennar eru um að stytta vinnuvikuna og fá sömu laun. Ef við trúum því í alvöru að það eigi að vera frjálsir samningar á vinnumarkaði og að löggjafinn og ríkisvaldið eigi að styðja við þessa frjálsu samninga eigum við að leyfa mönnum fyrst að ná einhvers konar lendingu og styðja við þá lendingu með lagasetningu síðar ef á þarf að halda.