149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þessu frumvarpi og gildistíma þess á verkefnið tvímælalaust heima þar. Í frumvarpinu stígum við einmitt fyrsta skrefið sem þarf síðan að klárast á vegum aðila vinnumarkaðarins. Aðeins varðandi verðbólguástæður í síðustu styttingu: Ýmsum sögum fer af því hverju það verðbólguskot sé um að kenna og alls ekki endilega styttingu vinnuvikunnar. Það var líka hagvöxtur fjögur af fimm árum í kjölfarið, minnir mig, sem má alveg eins segja að hægt væri að rekja til styttingar vinnuvikunnar. Tilraunirnar sem eru í gangi núna sýna að fólk skilar betri vinnu á skemmri tíma á þeim stöðum þar sem verið er að prófa styttingu vinnuvikunnar; og þar er meiri ánægja, lífsgæði o.s.frv.

Það er alveg rétt að það er erfitt að bera saman vinnutíma á milli landa. Í Bretlandi er það t.d. mismunandi, u.þ.b. 50/50, hvort frítími er talinn með í vinnutímanum, kaffitímar og svoleiðis, eða ekki. Það eina sem við höfum til að bera saman heildina, bestu gögnin sem við höfum, eru gögn OECD. Þá verður maður aðeins að hnika súlunum til, kannski ekki Íslandi í hag því að við vitum hvernig kerfið er hér á meðan kerfin annars staðar eru blönduð og kannski lítið vitað um það hvernig tölurnar eru teknar saman þar. Það er samt besti samanburðurinn sem við höfum. Því leitum við til þeirrar tölfræði. Ég tek hvatann til yfirvinnu kannski næst.