149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þetta andsvar því að þetta er mér mikið hugðarefni. Umræðu um kjaramál ber hátt þessa dagana. Þessi umræða — um samhengi verðbólgu og launahækkana, samhengi verðbólgumarkmiðs og framleiðniaukningar, og ramma sem það dregur utan um svigrúm til launahækkana á hverju ári — er gríðarlega mikilvæg.

Þetta er gjarnan kallaður hræðsluáróður í umræðunni en þetta er bara hin hagfræðilega staðreynd sem er virt í öllum nágrannalöndum okkar og er t.d. undirstaða norræns vinnumarkaðar af hálfu bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar, að vinnumarkaður verði að vinna innan þessa svigrúms, annars drögum við úr samkeppnishæfni okkar gagnvart öðrum löndum. Það sé hin einfalda staðreynd. Það hefur verið algjör grundvallarregla á öllum hinum Norðurlöndunum, myndi ég segja, allar götur frá 1993, að ekki sé samið umfram þetta svigrúm. Sumir eru jafnvel með lægra svigrúm. Svíar tala um 3–3,5% því að verðbólgumarkmið þeirra er að halda verðbólgu innan við 2%.

Þetta er ekki hræðsluáróður, ekki grímulaus áróður atvinnurekenda til að halda launþegum með einhverjum hætti niðri. Það er bara einfaldlega löngu búið að sýna fram á þetta af öllum færustu hagfræðingum hins vestræna heims. Það er augljóst samhengi þarna á milli.

Ástæðan er einföld: Launakostnaður í samfélaginu, þegar við reynum að einfalda samfélagið niður í skýra mynd, er u.þ.b. 65–70% af því sem við öflum. Við getum líkt þessu við heimili sem aflar tekna og köllum þær 100 — laun allra íbúa landsins — og gjöld heimilisins eru u.þ.b. 65–70 af hundraði. Ef við hækkum þessi laun um 10% eða 20% hljóta þessar tekjur, sem voru 100, að þurfa að hækka eitthvað til að standa undir því, annars fer illa. Þetta útskýrði reyndar aðstoðarseðlabankastjóri alveg (Forseti hringir.) ágætlega í vikunni og þess vegna er mjög mikilvægt að halda þessu til haga. Þetta helst algerlega í hendur.