149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Möguleiki var að hugsa um þetta sem brottfall laga á einhvern hátt. Markmiðið með þessu er tvímælalaust að ná því jafnvægi sem verið er að tala um á milli frítíma og vinnu. Þá varð einhvern veginn að koma því markmiði fyrir á einhverjum stað, en eins og er er þetta hreinlegasti staðurinn til þess. Þess vegna er einmitt ekki verið að fella út launahækkunina sem var innbyggð í gömlu lögin. Hugsunin er réttindaaukning, þess vegna finnst mér ekki alveg rétt að kalla þetta ótímabært inngrip, af því að það er markmiðið. Kannski er ekki réttast að ná því á þennan hátt. Kannski er hægt að ná því á einhvern annan hátt í gegnum önnur lög sem hv. þingmaður nefndi. Þetta virtist beinasta og hreinlegasta leiðin til að ná markmiðinu um aukið jafnvægi milli frístunda og vinnutíma, alla vega frá löggjafanum séð.

Frumvarpinu var stillt upp á þann hátt að efni þess væri ekki inngrip í kjarasamninga og inn í samningsrétt fólks, einmitt af því að þeir aðilar sem eru mest á móti þessu eru ekki bundnir af þessum lögum. Þeir geta gert samninga þó að við myndum breyta þessu niður í 35 vinnustunda viku og þá geta heildarsamningar þeirra hljóðað upp á 37 og þeir þyrftu ekki að fara eftir þessum lögum. Það ákvæði er enn þá í þessum lögum.

Það er rétt að við erum í forréttindastöðu, vinnum ekki á aðfangadag, og ég tek undir með hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, við erum heldur ekki í nákvæmlega þessari vinnu hérna á sumrin. Það mætti alveg lengja þingfundi yfir á sumarið og nefndarfundina sérstaklega, ekki klippa á þingmálahalann, þannig að nefndir gætu haldið áfram um sumarið að vinna í þingmálum sem yrðu þá tilbúin strax á haustþingi, (Forseti hringir.) en að sjálfsögðu erum við á fullu í vinnunni þó að ekki séu endilega þingfundir og nefndarfundir.