149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í greinargerð er þessari athugasemd einmitt svarað þar sem flutningsmenn vísa til þess að í athugasemdum við 13. gr. laga nr. 97/1995, sem varð að 75. gr. stjórnarskrárinnar, kemur fram að með reglu 2. mgr. sé sú skylda lögð á löggjafann að tryggja að réttindum á þessu sviði verði markaður ákveðinn rammi með lögum. Ekki er þó nánar mælt fyrir um til hvaða atriða þurfi að taka afstöðu á þennan hátt með lagasetningu. Þannig verður ekki séð að í lagasetningu um lengd vinnuviku felist brot á þessu ákveðna ákvæði, enda eru líka til lög um 40 stunda vinnuviku. Þau ættu þá að vera brot á þessari grein ef svo væri. Ég sé því ekki það vandamál að þetta ótímabæra inngrip eða brot á samningsrétti, eða eitthvað svoleiðis, eigi við í þessu tilviki, alla vega ekki miðað við það ákvæði stjórnarskrárinnar.

Í heildina litið er þessi framlagning og þessi umræða helmingur af tilgangi þess að leggja frumvarpið fram, þ.e. að fá þessa umræðu hér í gang og ná þeim markmiðum sem frumvarpinu eru sett, hvort sem það verður með þessari löggjöf eða eftir öðrum ráðum. Þessi umræða held ég að sé mjög hjálpleg til að ná þeim markmiðum.

Ég hlakka til þess og ég þakka fyrir viðbótina sem hv. þingmaður kom með um skikkað sumarleyfi og þessa starfsdaga alla — þetta er meira bullið, verð ég að segja. Ég var að vinna á leikskóla fyrir rúmum 20 árum og þar var maður í vinnu á sumrin. Þar voru krakkar ekki skikkaðir í sumarleyfi á ákveðnum tíma og þetta voru bestu tímarnir; færri krakkar og færra starfsfólk — kannski að einhverju leyti óhagkvæmt en starfið var miklu betra þegar ekki var eins troðið.