149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir þetta andsvar. Þarna kom kannski í ljós það sem ég taldi mig hafa lesið í gegnum frumvarpið, að það væri kannski fyrst og fremst vilji hv. þingmanna til að vekja athygli á þessu máli og fá umræðu um það.

Ég ætla að taka fram að það er alls ekki afstaða mín að þó að hér komi fram frumvörp og fái umsögn frá aðilum og þeir séu neikvæðir eigi ekki að ræða þau. Ég er sjálf flutningsmaður á einu slíku frumvarpi og það er auðvitað okkar ákvörðun hvað er rætt hér í þingsal og réttur þingmanna er að leggja fram frumvörp, þannig að það misskiljist alls ekki.

Margir hafa líka komið með mjög jákvæðar umsagnir um frumvarpið. Þá held ég að fólk sé fyrst og fremst að veita jákvæðar umsagnir um það einmitt að vinnuvikan styttist. Hvort til þess þurfi breytingar á þessum lögum er svo spurning sem við þurfum að velta upp sérstaklega.

Ég ætla líka að þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á mikið áhugaefni mitt, sem er rekstur leikskóla, þeirra mikilvægu uppeldisstofnana en jafnframt þjónustustofnana. Það sem hv. þingmaður nefndi og ég hafði notað í ræðu minni, að skikka í sumarfrí, með því er ég auðvitað ekki að tala um að börn hafi ekki gott af því að fara í sumarleyfi. (BLG: Á ákveðnum tíma.) Ég held að það sé hluti — einmitt, á ákveðnum tíma — af rétti hverrar fjölskyldu að ákveða hvenær það henti fjölskyldunni að taka saman frí, hvort það henti að taka það samfellt í þrjár, fjórar eða fimm vikur eða styttri tíma á öðrum tíma ársins.

Að sjálfsögðu eiga sveitarfélög og rekstraraðilar leikskóla að hafa metnað til þess að bjóða upp á góða þjónustu sem uppfyllir öll þau skilyrði sem við gerum til leikskólanna sem eru vissulega líka fræðslustofnanir án þess að vera með mikið inngrip í líf fjölskyldna.

Að lokum langar mig að nefna eitt, af því að ég nefndi sérstaklega aðfangadag og gamlaársdag, að ég lýsi bara áhuga á því að taka þátt í vinnu ef upp koma hjá þingmönnum hugmyndir um að fara í breytingar á slíkri löggjöf. Þá má líka velta fyrir sér, ég veit að sumir þingmenn hafa nefnt 1. desember sérstaklega (Forseti hringir.) af því tilefni, hvort ástæða sé til að það væri hátíðisdagur sem væri almennt ekki venjulegur vinnudagur.