149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:23]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu úr hófi en fara almennum orðum um þetta mál. Það hafa komið fram ágætar ábendingar um samráð við aðila vinnumarkaðarins og aðila atvinnulífsins. Ég tek í sjálfu sér ekki afstöðu til þeirra en minni þó á að það er líka hlutverk Alþingis að skapa samfélaginu umgjörð og þar með réttindum borgaranna.

Alþingi á sér sögu í lagasetningum af þessu tagi alveg frá því að hér voru sett vökulög um hvíldartíma sjómanna árið 1921. Við erum öll sammála um að Alþingi hafði mikinn sóma af því. Þau lög voru ekki sett án þess að barist væri hatrammlega gegn þeim og í raun í trássi við vilja margra útgerðarmanna.

Þetta mál er komið fram vegna þess að það er ákveðinn vandi. Það er ákveðinn þjóðarvandi sem kannski má lýsa þannig að Íslendingar vinna lengur en aðrar þjóðir sem þeir vilja bera sig saman við en framleiðni þeirra er minni. Þetta er vandi sem hefur augljóslega vafist fyrir aðilum vinnumarkaðarins að leysa þannig að bæði framleiðnin batni og líka að líf þess fólks sem samið er við batni.

Það eru alls konar ástæður fyrir þessu. Þær eru sögulegar og þær eru menningarlegar og kannski hefur verið hér um aldir ákveðin upphafning þrældómsins. Við höfum haft tilhneigingu til þess að mæla manngildi fólks með dugnaði og vinnuhörku og hversu hart það leggur að sér í vinnu. Við mælum enn þá, held ég, manngildið dálítið mikið í dugnaði og vinnuframlagi og dugnað mælum við núorðið í viðveru á vinnustað.

Sú viðvera vill stundum lýsa sér í ákveðnu hangsi. Fólk hangsar kannski fram eftir degi og rýkur svo til og vinnur í yfirvinnutímanum það sem það hefði jafnvel getað klárað miklu fyrr. Eins og fram hefur komið, í máli hv. þingmanna hér á undan mér, hefur gætt ákveðinnar ásóknar í yfirvinnu. Það er náttúrlega vegna þess að dagvinnulaunin eru allt of lág og fólk þarf að auka tekjurnar með yfirvinnu, auk þess sem það þykir góður bragur á því að vera lengi í vinnu. Það þykir vera til marks um dugnað.

Við þekkjum það hér líka. Þetta er svona aflahrotuhagkerfi sem við búum við enn þá, aflahrotuhugsunarháttur. Það þarf að bjarga verðmætum, það eru fullar stíur af fiski og við þurfum að koma honum undir eins í vinnslu. Þannig afgreiðum við meira að segja lög hér á þessum vinnustað.

En Ísland er í 33. sæti af 38 löndum í samanburði um jafnvægi vinnu og einkalífs. Það er samkvæmt margnefndri skýrslu OECD. Þess er líka að gæta að þessi mörk milli vinnu og einkalífs eru alltaf að verða ógreinilegri með þessum tækjabúnaði sem við höfum, þ.e. við erum í vinnunni svo lengi sem við erum með snjallsímann okkar. Við erum jafnvel með snjallsímann við hliðina á okkur á nóttunni. Svo erum við kannski andvaka og grípum þá í hann og erum óðar komin í vinnuna.

Lagaumgjörðin þarf einhvern veginn að bregðast við þessu og það er líka okkar hlutverk. Það er ekki bara samningsatriði milli aðila vinnumarkaðarins.

Það eru margvísleg rök, sem ég þarf kannski ekki að fara mjög mikið út í hér, sem mæla með því að stytta vinnutíma, stytta viðveru á vinnustað og margir hv. þingmenn hafa vikið að á undan mér. Þetta eru heilsufarsleg rök og þetta eru rök sem lúta að lífsgæðum fólks og þetta eru fjölskyldurök. Þetta eru rök sem snúa að góðu lífi og þetta eru líka rök sem snúa að framleiðni.

Það kemur fram í þessari skýrslu OECD að fylgni virðist vera milli þess að styttri vinnuvika leiði hreinlega til aukinnar framleiðni. Þjóðir sem eru með mjög langa vinnuviku, eins og t.d. Grikkir, vinna einna lengstu vinnuvikuna, eru í 8. sæti yfir þær þjóðir sem eru með minnsta framleiðni. Þjóðir sem vinna fæstu vinnustundirnar á ári eru á topp 10 lista yfir þær þjóðir sem hafa mesta framleiðni.

Ýmsum hér hefur orðið nokkuð tíðrætt um aðila vinnumarkaðarins og nauðsyn þess að hafa samráð við þá. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir vék að því að ASÍ og SA og Viðskiptaráð hefðu verið samhljóða í umsögnum sínum og lagst gegn þessu. En þá kannski gleymast ein samtök sem hafa talað með öðrum hætti og beitt sér með öðrum hætti og það er BSRB, sem hefur þvert á móti barist fyrir styttingu vinnuvikunnar. Það er beinlínis talað um það á heimasíðu samtakanna, með leyfi forseta:

„Stefna BSRB er sú að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 …“

Það er ekki nóg með það heldur hefur BSRB staðið ásamt Reykjavíkurborg að mjög merkilegu tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar, án launaskerðingar, vel að merkja, sem hófst 2015 á tveimur starfsstöðvum og svo var þeim fjölgað upp í sex haustið 2016. Árið 2017 var ákveðið að hefja nýjan áfanga þar sem öllum starfsstöðvum borgarinnar var boðið að taka þátt. Sá áfangi hófst nú á þessu ári, í febrúar 2018. Yfir 100 staðir hafa sótt um að vera með og taka nú þátt í þessu verkefni, með 2.000 starfsmenn af tæplega 8.500.

Þessir staðir stytta vinnuvikuna um eina til þrjár klukkustundir á viku og flestir um þrjár klukkustundir. Í fyrri áfanga voru flestir með fjögurra klukkustunda styttingu á viku og svo er ætlunin að þessu verkefni ljúki 2019.

BSRB hefur líka verið með ríkinu í tilraunaverkefni á fjórum ríkisstofnunum og bæjarstjórn Akraness ákvað í apríl 2018 að undirbúa svona tilraunaverkefni. Hið sama má segja um meiri hlutann á Akureyri.

Þegar hafa komið fram vísbendingar sem eru mjög lofandi um þetta. Það hefur dregið úr andlegum og líkamlegum einkennum álags. Það er aukin starfsánægja. Áhrif styttingar eru meiri en væntingar starfsfólks stóðu til í upphafi. Það er aukinn sveigjanleiki í lífi fólks og dregið hefur úr skammtímaveikindum.

Það sem kannski er ekki síst vert að hafa í huga í þessu sambandi er að þetta hefur haft góð áhrif á jafnrétti á heimilum. Feður hafa tekið aukinn og virkari þátt í heimilisstörfum og orðið virkari þátttakendur í lífi barna sinna. Bæði hvað það varðar og eins þegar litið er til þess að konur þurfa stundum á sveigjanlegri vinnutíma að halda er þetta líka jafnréttismál.

Þegar allt er talið saman tel ég að hér sé um að ræða framfaramál.