149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:36]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég verð að segja þingmönnum Pírata til hróss að þeir eru þolinmóðir og gefast ekki upp þar sem þetta mun vera í fjórða sinn sem frumvarpið er lagt fram, sem er góðra gjalda vert. Ég er hins vegar á svipuðum nótum og margir aðrir sem hafa komið og gagnrýnt frumvarpið efnislega, þ.e. ég hef litið þannig á að ákvæði um vinnutíma séu með sama hætti og ákvæði um laun viðfangsefni kjarasamninga þótt síðan geti komið til okkar kasta ef nauðsyn krefur að styrkja grunn þeirra kjarasamninga sem aðilar vinnumarkaðarins komast að. Það kann að vera skynsamleg nálgun.

Ég held hins vegar að ef við tökum að okkur það hlutverk almennt að ákveða vinnutíma á almennum vinnumarkaði séum við í raun að taka yfir hlutverk aðila vinnumarkaðarins, hlutverk samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks, vegna þess að það er auðvitað samhengi á milli vinnutíma og þeirra kjara annarra sem samið er um.

Ég er þar af leiðandi sammála því sem kom fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið þegar það kom fram í fyrsta eða annað skipti, að mikilvægt sé að Alþingi virði hlutverk þessara samtaka, samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda, virði það að þau eigi að leiða og taka ákvörðun um hvernig teknar eru ákvarðanir um breytingar, um kaup og kjör og þar með vinnutíma, og að við eigum alls ekki að grípa til einhverra aðgerða þegar kjaraviðræður eru fram undan eða þegar þær standa yfir.

Því er oft haldið fram að vinnutími á Íslandi sé óeðlilega langur. Það er í þeim efnum eins og öðrum að menn geta leikið sér með tölfræði með ýmsum hætti og fengið gjörólíkar niðurstöður jafnvel úr sama gagnagrunni. Þegar litið er til fjölda vinnustunda sem unninn er hér á landi á hverju ári er hann langt í frá óeðlilegur eða hærri en gengur og gerist í löndum í kring. Þegar allt er talið erum við í rauninni lægri en flestar aðrar þjóðir varðandi fjölda vinnustunda.

Það er nefnilega þannig að í kjarasamningum semja menn ekki aðeins um vinnutíma og laun, menn semja t.d. um orlofsrétt og hann er ríflegri hér en víðast annars staðar. Það þekkist auðvitað ríflegri orlofsréttur í einhverjum öðrum löndum en hann er ríflegur hér miðað við flestöll önnur lönd sem við berum okkur saman við. Þetta eru 28–30 dagar og þess utan erum við með ellefu og hálfan frídag. Við verðum að taka tillit til þess. Miðað við þær tölur sem ég hef frá 2017, ég hef ekki nýrri, þar sem borinn er saman ársvinnutími samkvæmt lögum og kjarasamningum í Evrópu, er Ísland með 1.632 vinnustundir á ári. Í Danmörku eru þær 1.635, í Þýskalandi 1.651, í Svíþjóð 1.666 og svo er Ungverjaland með 1.840 og Frakkland töluvert undir okkur. Við erum því á svipuðu reki, a.m.k. á þennan mælikvarða, og gengur og gerist á Norðurlöndunum, Norðmenn eru meira að segja aðeins fyrir ofan okkur.

Ég veit ekki hvort ég tók vitlaust eftir þegar hv. 1. flutningsmaður, Björn Leví Gunnarsson, var í andsvörum áðan og sagði að þetta frumvarp gengi ekki út á að hækka launakostnað atvinnurekenda eða hefði ekki áhrif til þess að hækka tímakaup á unnum vinnustundum. Ég sé að hv. þingmaður hristir hausinn, sem er gleðilegt vegna þess að þetta kom mér á óvart þar sem annað stendur í greinargerðinni. Það er minn misskilningur.

Þá stöndum við frammi fyrir því ef við tökum ákvörðun um það einhliða að fækka vinnustundum samkvæmt lögum í 35, höldum okkur við þann orlofsrétt sem kveðið er á um í kjarasamningum og höldum lögbundnum frídögum að við erum að taka ákvörðun um að hækka launakostnað um 14%, eitthvað svoleiðis. Nú er alveg sama hvað hv. þingmaður hristir hausinn hratt og oft, þetta þýðir aukinn launakostnað vegna þess að staðreyndin er auðvitað sú að framleiðni í atvinnulífinu verður ekki aukin með pennastriki eða löggjöf á Alþingi. Ef menn halda það væri einfalt að auka og bæta lífskjör allra. Ef við gætum tekið ákvörðun um að framleiðni í atvinnulífinu skyldi aukast um 10% á næsta ári væri okkar verk tiltölulega einfalt. En staðreyndin er því miður að ekki er hægt að gera það.

Þegar menn tala um að framleiðni vinnuaflsins á Íslandi sé lægri en í samanburðarlöndunum eru þeir ekki alveg sanngjarnir vegna þess að þá eru þeir að bera saman og nota ofmat á vinnutíma sem eru greiddir tímar, en taka ekki tillit til þess t.d. að hér eru greiddir kaffitímar o.s.frv. sem skekkir myndina.

Framleiðni vinnuaflsins eykst smátt og smátt með ýmsum hætti. Við innleiðum nýja tækni, ný vinnubrögð. Við skipuleggjum vinnustaðina á betri og skynsamlegri hátt o.s.frv. og þannig náum við árangri.

Ég hef hins vegar meiri áhyggjur af því að á komandi áratugum munum við horfa fram á einhverja mestu áskorun sem við höfum þurft að glíma við. Það er staðreynd að við erum að eldast sem þjóð. Æ fleiri eru utan vinnumarkaðar. Okkur hefur mistekist að koma í veg fyrir nýgengi örorku. Ég held að ég hafi bent á það áður að þegar dóttir mín, sem er 19 ára, verður jafn gömul og ég er í dag er hættan sú — vegna þess að þeim fjölgar stöðugt sem eru utan vinnumarkaðar, fæðingartíðnin heldur áfram að lækka, við erum komin niður í 1,7 úr eitthvað um 4 árið 1960 þegar ég fæðist — að hún þurfi að sætta sig við að langstærsti hluti af þeirri framleiðniaukningu og verðmætaaukningu sem hefur orðið til á meðan hún var á vinnumarkaði geti ekki farið í að bæta kjör hennar eða jafnaldra hennar heldur verði að fara til þess að greiða og standa undir þeim kostnaði sem fylgir heilbrigðiskerfinu, almannatryggingum, skólakerfinu, hinum sameiginlegu verkefnum sem við erum öll sammála um að við verðum að standa að með myndarbrag.

Ég hygg að við ættum kannski frekar að nota tíma okkar í þessum sal í að velta því fyrir okkur, barna okkar og barnabarna vegna, hvernig við ætlum að tryggja að á komandi áratugum muni tækniframfarir og sú framleiðni- og verðmætaaukning sem verður til hér til þess að unga fólkið í dag geti horft fram á að búa við betri lífskjör en við gerum í dag, að þau fái stærstan hluta af þeirri framleiðniaukningu og verðmætaaukningu sem verður á komandi árum.

Það er nefnilega raunveruleg hætta á því, þótt ég ætli ekki að mála skrattann á vegginn vegna þess að við getum gert ýmislegt til að koma í veg fyrir það, að kynslóð barna minna geti orðið fyrsta kynslóð í langri sögu Íslands sem verður ekki betur sett en kynslóðin sem kom á undan. Sú áskorun leysist ekki með 35 stunda vinnuviku.