149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna nokkur atriði. Í ræðu hv. þingmanns kom fram sá skilningur að ekki væri verið að hækka launin fyrir styttingu vinnuvikunnar. Ég hélt að náðst hefði sameiginlegur skilningur í því þegar ég var að kinka kolli en svo kemur hann fram með þessa 14% aukningu. 40 deilt með 35 er 14% hækkun sem er forsenda sem ákveðnir aðilar innan Samtaka atvinnulífsins, minnir mig, voru að tala um að væri hækkunin ef dagvinnulaunin yrðu þau sömu fyrir 35 stunda vinnuviku og fyrir 40 stunda vinnuviku.

Það er ekki hluti af þessu. Þessi breyting er skilgreining á fjölda dagvinnutíma. Það breytir ekki laununum, þ.e. starfsmaður sem vinnur núna átta tíma á dag í dagvinnutíma myndi eftir þessa breytingu vinna sjö tíma á dag í dagvinnu og einn tíma á dag í yfirvinnu. Breytingarnar gerast ekki það hratt að allt í einu hverfi klukkutími í burtu. Þær gerast hægt eins og við höfum séð á breytingu á lögunum frá styttingu vinnuvikunnar úr 44 niður í 40. Það tók mjög mörg ár að ná því markmiði.

Vissulega hækka launin um það sem munar á launum fyrir einn dagvinnutíma á móti einum yfirvinnutíma ef atvinnurekendur koma ekki í rauninni til móts við þá hækkun með því að stytta þennan eina klukkutíma um hálftíma, korter eða eitthvað svoleiðis og þá heldur fólk sömu launum fyrir aðeins styttri vinnutíma á þeim degi. Þetta vinnst síðan smám saman í áttina að 35 stunda vinnuviku. Það er ekki verið að breyta því með einu pennastriki að fólk fari allt í einu að vinna fimm klukkustundum minna. Það er verið að breyta skilgreiningunni á því hversu margir dagvinnutímar eru í einni vinnuviku.