149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að við erum farnir að skilja hvor annan þannig að í rauninni feli þetta frumvarp í sér, með fullri virðingu fyrir öllum, að það sé verið að bæta einum stubbi við, eins og við kölluðum, að næla sér í einn stubb í yfirvinnu. Það er ekki verið að bæta neinn hag öðruvísi en að í staðinn fyrir að vera á dagvinnutaxta klukkutíma á dag fer starfsmaðurinn á eftirvinnutaxta. Af hverju leyfum við ekki bara Samtökum atvinnulífsins og forystumönnum launþegasamtakanna að komast að samkomulagi um það hvernig þau vilja tryggja að kaup og kjör batni á komandi árum?

Það eru nokkrar leiðir. Ég veit að Samtök atvinnulífsins hafa m.a. lagt til að fækka yfirvinnustundum og reyna að ná yfirvinnu inn í dagvinnuna, það er ein leið, og að yfirvinnan verði greidd í dagvinnunni með þeim hætti. Ég held að það sé alveg fráleitt af okkar hálfu að taka fram fyrir hendurnar á frjálsum félögum atvinnurekenda og launafólks og ákveða með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi.

Ég get verið sammála því markmiði að það sé eftirsóknarvert að stytta vinnuvikuna og auka þar með tíma fólks til að verja með fjölskyldunni eða sinna sínum áhugamálum, það er eftirsóknarvert, án þess að það rýri kaup og kjör að öðru leyti. Ég hygg að við höfum tækifæri til þess í framtíðinni ef við höldum skynsamlega á málum en ég vil að þeir geri það sem til þess (Forseti hringir.) eru bærir og bera miklu betra skynbragð á þessa hluti en bæði ég og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Við skulum lofa þeim að gera þetta.