149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:55]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eiga orðastað við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson um jafnlaunavottun. Skoðanir mínar á því liggja fyrir í þingtíðindum.

Ég tek hátíðlega ákvæði stjórnarskrárinnar, t.d. um samningsfrelsi, og ég tel að það sé óeðlilegt, ósanngjarnt og eiginlega næstum því óverjandi að við í þingsal grípum inn í samninga sem eðli máls samkvæmt eiga að vera á milli frjálsra aðila í atvinnulífinu, þ.e. samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda. Það kann vel að vera að okkur finnist að vinnuvikan eigi bara að vera 35 stundir. Það er allt í lagi. Ég er með hv. þingmanni í því, en ég ætla hins vegar ekki að taka ákvörðun um það fyrir hönd launafólks eða atvinnurekenda að dagvinna skuli skilgreind 35 vinnustundir.

Það getur vel verið að í komandi kjarasamningum komist menn að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegast að stefna að því að dagvinna skuli vera 35 stundir á viku, eða 32, en við skulum lofa fólki í frjálsum samningum að komast að þeirri niðurstöðu. Ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sé sammála mér í því að við gerum best og skynsamlegast í því að virða samningsfrelsi fólks. Þetta er spurning um samningsfrelsi og að við séum ekki með óeðlileg afskipti hér af þeim kjarasamningum sem í hönd fara.