149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:57]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Takk kærlega fyrir umræðurnar, hv. þingmenn. Hérna var farið yfir ýmislegt, hvernig við ættum að stíga varlega til jarðar, farið var út í verðbólgu og samanburð á vinnutíma á milli landa, hvernig hvatinn til yfirvinnu er mismunandi á milli landa þar sem yfirvinnuálag er meira sums staðar og minna annars staðar og hvað það þýðir fyrir vinnuveitendur að kalla eftir yfirvinnu eða vinnandi fólk að biðla um yfirvinnu. Farið var yfir launavísitöluna, sem er dálítið skekkt fyrirkomulag en svo sem hægt að nota til að bera saman tvo hópa. Hugsað var um brottfall laga. Ég myndi vilja leggja til að líka væri hugsað til þess að breyta heiti laganna, að þau hétu einfaldlega lög um fjölda dagvinnutíma en ekki endilega lög um 35 stunda vinnuviku eða 40 stunda vinnuviku. Og svo vinnuvernd.

Stærsta málið sem oftast var talað um var sú ásökun að verið væri að grípa inn í frjálsa samninga. Mitt svar við því er mjög einfalt: Við vinnum rosalega oft með ákveðin grunnréttindi í þessum sal. Hver eru grunnréttindi fólks? Fólki er frjálst að semja um allt sem er umfram. Í þessu tilviki er verið að setja ákveðin réttindi um skilgreiningu á því hver sé fjöldi dagvinnutíma. Hver er nákvæmlega skilgreiningin á dagvinnutíma, hvað hann þýði, er ekki sett fram hér. Sú skilgreining er enn þá á vettvangi þeirra sem eru á vinnumarkaði, hver dagvinnutaxtinn er, hvert yfirvinnuálagið er. Þeir ná kannski þeim breytingum að með styttri dagvinnutíma lækki dagvinnutaxtinn — eða hækki, hver veit? Það er algjörlega undir samningsfrelsi þeirra komið.

Markmiðið hérna er réttindavinnslan. Við komum inn á það svið á hverjum degi með NPA-samningum, að það sé orðin skylda sveitarfélaga að útvega NPA-þjónustu og einnig grunnskólaþjónustu. Heilbrigðiskerfið okkar t.d. líka. Það er fullt af atriðum sem aðrir gætu alveg séð um. Það sem við sjáum um er: Hvar er grunnurinn sem aðrir verða að byggja á? Vissulega getur verið rétt að í þessu tilviki endi aðilar vinnumarkaðarins með 32 stunda vinnuviku eftir kjarasamningana. En grunnurinn yrði samt 35 miðað við það sem við gætum ákveðið hérna.

Ég fór yfir og farið er yfir það í greinargerðinni hvernig ekki er hægt að sjá að þetta fari gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar um samningsfrelsið, enda er tilgangurinn alls ekki að fara þangað. Það er alls ekki markmiðið. Ég skil vel að erfitt sé að máta sig inn í nákvæmlega hvernig þetta dettur inn, bæði út af því hvernig lögin eru um 40 stunda vinnuviku, hvernig styttingin var úr 44 stundum í 40. Þar var tvímælalaust inngrip í kjarasamninga, eftir á að hyggja var það mjög ströng lagasetning. En þetta er allt önnur nálgun.

Ég vildi leggja til að 8. gr. í núverandi lögum yrði felld úr gildi. Það voru einhver vafamál um hvað það þýddi með tilliti til ýmissa þátta þannig að ég legg fyrir nefndina hvort 8. gr. þurfi að fara eða hvort hún geti verið.

Þess vegna er gildistími frumvarpsins aukinn, aðilum vinnumarkaðarins er gefið svigrúm til að vinna þá réttindabreytingu inn í kjarasamningana sína. Einungis á þann hátt ætti það ekki að vera inngrip í kjarasamningana heldur augljós skilaboð um að þetta séu grunnréttindi fólks.

Það er mjög mikilvægt að huga dálítið að því fyrir hverja við störfum á þingi. Erum við ekki fulltrúar kjósenda, þjóðarinnar sem velur okkur inn á þing? Er umboð okkar ekki alveg skýrt í þeim málum? Af hverju er það einungis launþega og atvinnurekenda að sjá um þau mál? Hefur ekki oft verið inngrip þar áður og miklu meira en þetta, lagasetning á verkföll? Hvað er það annað en inngrip í kjaraviðræður?

Þeir þingmenn sem hafa nefnt þetta sem alvarlegt inngrip í samningsfrelsið eru ekki endilega saklausir af því sjálfir, eða flokkar þeirra, að vera með inngrip í kjaraviðræður á þann hátt.

Ég hef verið hérna uppi á pöllunum. Ég má nú ekki nefna það með kennara en ég var starfsmaður í grunnskóla, var í kennaranámi, og þá var kennaraverkfall. Sett voru lög á það verkfall á þeim forsendum að ef ekki næðust samningar myndi falla gerðardómur. Það var mjög skýrt hvert hámark gerðardómsins var. Það voru kröfur settar af launagreiðendum en ekki kennurum. Búið var að setja hámark, algjört hámark á það hverju gerðardómur gæti skilað. Þess vegna náðust síðan samningar, með hótunum. Hvernig er það ekki inngrip í samningsfrelsið?

Þetta sé ég alls ekki sem inngrip í samningsfrelsið og ég er að reyna að útskýra það þannig að það komist rétt til skila með því að segja að launin hækki ekki sjálfkrafa miðað við styttingu dagvinnutímans, sem ætti að gera það nokkuð skýrt, með því að sýna fram á að gildistíminn er þetta rúmur til þess að gefa fólki tækifæri til að taka tillit til þeirrar réttindabreytingar í kjarasamningum og með því að svara fyrirspurnum þegar þær koma hérna.

Ég vonast eftir því að velferðarnefnd taki vel á málinu og hlakka til að sjá umsagnir Samtaka atvinnulífsins aftur þegar það er orðið skýrara að ekki sé verið að tala um að halda sama dagvinnutíma fyrir styttri vinnuviku. Ég hlakka til að fá að heyra umsagnir ASÍ, sérstaklega eftir landsþing þess á næstunni. Kannski verða einhverjar breytingar þar á, ég veit það ekki. Ég hlakka til að heyra umsagnir annarra umsagnaraðila og sem flestra. Ég hvet alla til að senda inn umsögn í málinu til þess að ýta undir umboð okkar þingmanna til að ná alla vega því markmiði að stytta vinnuvikuna, að ná meira jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, því að það er augljósa vandamálið sem frumvarpinu er ætlað að leysa. Hvort það leysist nákvæmlega með þessu frumvarpi veit ég ekki, kannski finnst betri leið, en markmiðið er mjög skýrt: Að betrumbæta hlutfallið á milli vinnu og einkalífs, að við höfum meiri tíma fyrir okkur sjálf, fyrir vini, ættingja, börn og áhugamál.

Þetta er mjög skýrt í þeim gögnum sem við skoðuðum hjá OECD, sem eru bestu gögnin sem við höfum um það. Hv. þm. Óli Björn Kárason fór með einhverja talnaromsu um vinnustundir á Norðurlöndum sem ríma ekki alveg við vinnustundirnar hjá OECD og heldur ekki þann fjölda vinnustunda sem ég fékk í gegnum upplýsingaþjónustu Alþingis. Ég er ekki alveg viss hvaðan heimildir hans komu. Vinnustundirnar hjá OECD og þær vinnustundir sem ég fékk frá upplýsingaþjónustu Alþingis rímuðu mjög vel saman. Mér þætti gaman ef hann sendi heimildina sem hann hefur fyrir þeim vinnutölum til hv. velferðarnefndar.

Að öðru leyti þakka ég kærlega fyrir umræðuna. Hún hjálpar vonandi til við að ná markmiðinu, hvort sem frumvarpið kemst alla leið eða ekki. Við hættum alla vega ekki að reyna.