149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:23]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Okkur er ekkert uppsigað við samningsrétt bænda eða samningsrétt Bændasamtakanna fyrir hönd bænda, en það er hins vegar kannski fullkomlega eðlilegt í nútímasamfélagi að samningsrétturinn liggi hjá bóndanum sjálfum og valið um það hvort hann eigi aðild að heildarsamtökum bænda eða ekki. Þegar maður horfir á þetta umhverfi, og það er kannski oft vandinn við þá umræðu sem snertir landbúnaðinn, er erfitt að greina hvort við horfum til bænda sem launþega hjá ríkinu eða sem sjálfstætt starfandi atvinnurekenda.

Ég kýs að horfa á bændur sem sjálfstætt starfandi atvinnurekendur sem er fullkomlega frjálst að eiga með sér samtök um slíkan atvinnurekstur eins og þeir sjálfir kjósa að gera eða standa utan slíkra samtaka ef þeir kjósa svo. Það er í raun fyrst og fremst það sem hér er verið að opna fyrir möguleikann á, að bændum sé sjálfum heimilt að fara með sinn samningsrétt, samningsumboð, en um leið að sjálfsögðu líka heimilt að fela það samningsumboð samtökum á borð við Bændasamtökin en hafi til þess (Forseti hringir.) frelsi að velja á milli.