149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:28]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ef við byrjum á síðari punktinum, hvað er markaðsráðandi aðili, þá er það auðvitað þekkt hugtak í samkeppnisrétti og er skilgreint af samkeppnisyfirvöldum fyrir hvern markað fyrir sig. Ég er ekki þess umkominn að svara því fyrir fram hvar endanleg mörk markaðsráðandi aðila í framleiðslu búvara myndu liggja. Það yrði væntanlega að mótast hjá samkeppnisyfirvöldum þegar málin kæmu til kasta þeirra. En hugmyndin að baki því að reisa skorður við markaðsráðandi aðilum er einmitt að stuðla að frjálsri samkeppni á markaði, bæði hjá bændunum sjálfum, eins og í þessu tilviki, og framleiðendunum og neytendum til hagsbóta. Hér er ekki verið að taka eitthvert vald af Bændasamtökunum. Það er einfaldlega verið að veita bændum sjálfum frelsi til að velja hvort þeir framselja sitt samningsumboð (Forseti hringir.) til Bændasamtakanna eða ekki. Stjórnvöld fara hins vegar vissulega með stjórnvaldsákvarðanir í þessum málum eins og (Forseti hringir.) á öllum öðrum mörkuðum.