149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:30]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Alltaf þegar kemur að umræðunni um landbúnað virðist ótti við frjálsa samkeppni gera mjög vart við sig. Hér er ekki verið að tala um neina breytingu á styrkjaumhverfi landbúnaðarins nema einna helst kannski það að verið er að reyna að búa til beint samband milli bænda og ríkisvalds varðandi það hvernig þeim stuðningi er varið. Við höfum ekki lagt til neinar breytingar á fjárhæð þess stuðnings, alls ekki, og styðjum í rauninni það stuðningskerfi sem við búum við í landbúnaði hvað varðar að það sé mjög mikilvægt að styðja við litla grein í erfiðri alþjóðlegri samkeppni.

Að sama skapi er ekki verið að leggja til neinar breytingar á tollaumhverfi greinarinnar í þessu frumvarpi og þar af leiðandi er ekki með neinum hætti verið að breyta samkeppnisumhverfi greinarinnar gagnvart mögulega erlendum innflutningi eða starfsemi erlendra aðila hér á landi, alls ekki, heldur er fyrst og fremst verið að veita bændum sjálfum aukið frelsi til samkeppni, markaðssetningar, vöruþróunar á sínum (Forseti hringir.) eigin afurðum á innlendum markaði. Um það snýst þetta mál fyrst og fremst.