149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:33]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er kannski ekkert á pappírum sem bannar samkeppnina, en henni eru reistar verulegar skorður. Það er þannig þegar við horfum á mjólkuriðnaðinn að þar er einn aðili í söfnun, við getum sagt á heildsölustigi greinarinnar, sem er með sennilega eitthvað vel yfir 95% markaðshlutdeild. Það hefur margsýnt sig að þegar aðilar hafa spreytt sig í samkeppni við þann sama aðila hefur þeim ekki farnast neitt sérstaklega vel. Það er ástæða fyrir því að samkeppnisyfirvöld í hverju landi á mörkuðum fara út í það að skilgreina markaðsráðandi aðila og hvaða hömlur þeim séu settar, t.d. hvernig þeir hegða sér gagnvart smærri aðilum innan greinarinnar. Ég sé ekki hvað er að óttast í því að slík ákvæði myndu gilda hér.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns um þau sérstöku skilyrði sem sett voru í þessum tiltekna samruna er svarið: Nei, ég hef ekki kynnt mér þau, en (Forseti hringir.) hins vegar má benda á að það er auðvitað reginmunur á viðskiptum með landbúnaðarafurðir innan innri markaðar Evrópusambandsins, að þar er flæði þeirra hins vegar tiltölulega frjálst þó (Forseti hringir.) svo að vel kunni að vera að einstök fyrirtæki hafi fengið undanþágur við samruna á sínum tíma.