149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. 93% af allri mjólk sem framleidd er fara ekki yfir landamæri. Ég ímynda mér því að hv. þingmaður þurfi að setjast aðeins betur yfir það hvernig fyrirheitna landið fer með landbúnaðarstefnu sína. Hv. þingmaður talar eins og það sé bara einn eða örfáir aðilar sem framleiði mjólk á Íslandi og mjólkurvörur en það er vitanlega ekki þannig. Við höfum fyrirtæki eins og Örnu, sem er stórkostlegt fyrirtæki, sem framleiðir úr mjólkurvörum og fer vaxandi í markaðshlutdeild. Við höfum Bio-bú. Við höfum sjálfstæða bændur, ég man ekki alveg hvað það heitir núna, ég er með það í skrifaðri ræðu hérna. Svo erum við með Ölgerðina, sem er risafyrirtæki á íslenskum markaði og er farið að framleiða núna úr mjólk og mjólkurvörum. Það geta allir safnað mjólk. Það geta allir framleitt úr mjólk. Það geta allir verið í nýsköpun í mjólk. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það.

Það er rétt að einn aðili er stærstur en það kemur ekki í veg fyrir að allir aðrir geti tekið þátt í þessu.

Spurningunni er hins vegar ekki svarað sem ég spurði hv. þingmann áðan, hvort flutningsmenn hafi kynnt sér hvað í samkeppnislögum Evrópusambandsins hefur verið látið víkja fyrir sameiginlegu landbúnaðarstefnunni. Það er til staðar (Forseti hringir.) líkt og við höfum ákveðið á Alþingi, þótt Samkeppniseftirlitið neiti að virða vilja Alþingis og fara (Forseti hringir.) eftir búvörulögum er víða búið að víkja þeim til hliðar.